Houston sýndi styrk sinn og jafnaði

James Harden leggur boltann ofan í körfuna.
James Harden leggur boltann ofan í körfuna. AFP

Houston Rockets jafnaði metin í einvíginu gegn meisturunum í Golden State Warriors í úrslitun vesturdeildarinnar í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Houston vann nokkuð öruggan sigur 127:105 og staðan er 1:1 í rimmu liðanna. James Harden skoraði 27 stig fyrir Houston og tók 10 fráköst og Eric Gordon setti niður 27 stig en fimm leikmenn Houston náðu tveggja stafa tölu í stigaskorun.

„Algjör liðsframmistaða. Við lékum fastar og vorum skynsamari heldur en í fyrsta leiknum. Þetta var eini munurinn,“ sagði Harden eftir leikinn.

Kevin Durant var stigahæstur í liði Golden State með 37 stig og næstur kom Stephen Curry með 16. Þriðji leikur liðanna verður á heimavelli Golden State á sunnudaginn.

mbl.is