Stórsigur Íslands í síðari leiknum við Noreg

A-landslið karla í körfuknattleik sem var í eldlínunni í Bergen.
A-landslið karla í körfuknattleik sem var í eldlínunni í Bergen. Ljósmynd/KKÍ

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta vann Noreg öðru sinni á jafnmörgum dögum þegar þjóðirnar áttust við í síðari vináttulandsleik sínum í Bergen í dag. Lokatölur urðu 89:58 fyrir Ísland, en í gær vann íslenska liðið öllu naumari sigur eða 71:69.

Leikurinn í dag var jafn framan af en íslenska liðið sigldi jafnt og þétt fram úr. Ísland var stigi yfir eftir fyrsta leikhluta, 15:14, en hafði aukið forskot sitt í sex stig í hálfleik, 36:30. Eftir hlé var svo ekkert sem fékk stöðvað íslenska liðið sem vann að lokum 31 stigs sigur, 89:58

Stigaskorun dreifðist vel innan íslenska liðsins í dag og alls komust allir leikmenn utan eins á blað sem yfir höfuð komu við sögu í leiknum. Emil Barja var fremstur meðal jafningja í sínum öðrum landsleik en hann skoraði 15 stig, tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Stig Íslands voru annars sem hér segir: Emil Barja 15, Ólafur Ólafsson 14, Gunnar Ólafsson 13, Ragnar Nathanaelsson 12, Collin Pryor 10, Kristinn Pálsson 9, Kristján Leifur Sverrisson 6, Tómas Hilmarsson 6, Danero Thomas 2, Haukur Óskarsson 2.

Leikirnir tveir voru spilaðir í tilefni af 50 ára afmæli norska körfuknattleikssambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert