ÍR keyrði yfir Blika í fjórða leikhluta

Sigurður Gunnar Þorsteinsson ÍR-ingur sækir að körfu Breiðabliks í leiknum ...
Sigurður Gunnar Þorsteinsson ÍR-ingur sækir að körfu Breiðabliks í leiknum í kvöld. mbl.is/Hari

Frábær fjórði leikhluti skilaði ÍR-ingum sigri gegn Breiðabliki í 3. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í Seljaskóla í kvöld en leiknum lauk með tíu stiga sigri ÍR, 92:82.

Blikar byrjuðu leikinn betur og náðu snemma fjögurra stiga forskoti. Þeir héldu þeirri forystu út allan fyrsta leikhluta og var staðan 24:20, Blikum í vil. ÍR komst yfir strax í upphafi annars leikhluta en Blikar voru fljótir að svara og náðu mest sjö stiga forskoti í öðrum leikhluta. Það var eins og það kæmi smá stress í Blika við þetta og þeir fóru að taka erfið skot utan af velli. Breiðhyltingar gengu á lagið og var staðan jöfn í hálfleik 44:44.

Seinni hálfleikurinn hófst líkt og sá fyrri og Blikar voru með yfirhöndina framan af. Munurinn varð hins vegar aldrei meira en fjögur stig og var staðan að loknum þriðja leikhluta 66:65, Breiðabliki í vil. Justin Martin ákvað að kveikja í húsinu með svakalegri troðslu í byrjun fjórða leikhluta og það setti tóninn. ÍR-ingar náðu fjórtán stiga forystu þegar leikhlutinn var hálfnaður og það bil náðu Kópavogsbúar ekki að brúa.

Justin Martin var stigahæstur í liði ÍR með 31 stig, 6 fráköst og fjórar stoðsendingar en ÍR er komið í sjötta sæti deildarinnar í 4 stig. Hjá Blikum var Christian Covile stigahæstur með 24 stig, 6 fráköst og eina stoðsendingu en Blikar eru á botni deildarinnar án sigurs eftir fyrstu þrjá leiki sína.

ÍR - Breiðablik 92:82

Hertz Hellirinn - Seljaskóli, Úrvalsdeild karla, 19. október 2018.

Gangur leiksins:: 4:8, 9:10, 14:19, 20:24, 27:26, 31:35, 38:39, 44:44, 52:50, 56:59, 59:61, 65:66, 77:69, 85:72, 89:77, 92:82.

ÍR: Justin Martin 31/6 fráköst, Gerald Robinson 25/7 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 18/10 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 9, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 5, Sæþór Elmar Kristjánsson 2, Daði Berg Grétarsson 2/4 fráköst.

Fráköst: 21 í vörn, 14 í sókn.

Breiðablik: Christian Covile 24/6 fráköst, Hilmar Pétursson 11/5 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 10, Arnór Hermannsson 8/5 stoðsendingar, Árni Elmar Hrafnsson 8/4 fráköst, Snorri Vignisson 7/4 fráköst, Þorgeir Freyr Gíslason 6, Bjarni Geir Gunnarsson 4/5 fráköst, Ragnar Jósef Ragnarsson 2, Erlendur Ágúst Stefánsson 2.

Fráköst: 22 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Friðrik Árnason.

Áhorfendur: 200

ÍR 92:82 Breiðablik opna loka
99. mín. skorar
mbl.is