Mætast aftur í Höllinni með 17 ára millibili

Jón Arnór Stefánsson og Logi Gunnarsson.
Jón Arnór Stefánsson og Logi Gunnarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir Logi Gunnarsson, leikmaður Njarðvíkur, og Jón Arnór Stefánsson, leikmaður KR, hafa marga fjöruna sopið í körfuboltanum jafnt hér á landi sem erlendis. Þeir mætast með liðum sínum í undanúrslitum bikarkeppninnar, Geysis-bikarnum, og rifjuðu upp hvenær þeir mættust síðast í Laugardalshöllinni.

„Ég og Jón vorum að tala um það að síðast þegar við mættumst tveir í bikarúrslitum var það árið 2002, svo það er orðið svolítið síðan við mættumst í Laugardalshöllinni,“ sagði Logi við mbl.is eftir að búið var að draga í undanúrslitin.

Njarðvík vann þennan umrædda leik 2002, 86:79, og Logi er spenntur að mæta KR-ingum í bikarnum á þessu stigi keppninnar á ný.

„Ég er rosa spenntur. Það hafa alltaf verið rosalegir leikir á móti KR í gegnum árin og vonandi verður það ekkert öðruvísi núna. Það er allt undir í þessum einu leikjum, undanúrslit og svo úrslit. Þetta er eina keppnin sem er svona og það er öðruvísi. Þetta verður stemning,“ sagði Logi Gunnarsson við mbl.is.

Logi Gunnarsson og Jón Arnór Stefánsson á landsliðsæfingu.
Logi Gunnarsson og Jón Arnór Stefánsson á landsliðsæfingu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þetta verður frábær viðureign

Jón Arnór man eftir umræddum leik 2002 og ljóst er að hann á harma að hefna gegn Loga.

„Þá vann Njarðvík í spennandi leik, að mig minnir. Það er orðið ansi langt síðan,“ sagði Jón Arnór við mbl.is. Hann er spenntur fyrir viðureigninni.

„Ég bjóst við að fá erfiðan leik. Njarðvík hefur verið á rosalega góðri siglingu og hefur verið eina liðið sem ekki hefur rokkað mikið upp og niður í leikjum. Þeir eru með besta liðið á landinu eins og staðan er í dag. En bikar er bikar og það þarf að vinna þessa tvo leiki í Höllinni til þess að lyfta þeim stóra,“ sagði Jón Arnór.

KR er ríkjandi Íslandsmeistari en Njarðvík er nú á toppi Dominos-deildarinnar, átta stigum fyrir ofan KR. Það segir ekki mikið þegar í undanúrslit bikars er komið.

„Það þarf að vinna góð lið og þetta verður frábær viðureign. Það er ofboðslega skemmtileg umgjörð í kringum þetta sem gerir þetta svo ofboðslega spennandi líka. Og í Höllinni sem við þekkjum vel, svo það er mjög gaman,“ sagði Jón Arnór Stefánsson við mbl.is.

Leikurinn fer fram fimmtudaginn 14. febrúar og sigurliðið mætir annaðhvort Stjörnunni eða ÍR í úrslitaleik laugardaginn 16. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert