Harden skorar enn en Houston tapaði

Paul George fagnaði sigri með Oklahoma gegn Houston og skoraði …
Paul George fagnaði sigri með Oklahoma gegn Houston og skoraði meira en Harden. AFP

James Harden hélt áfram sínu magnaða stigaskori í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt og í þetta sinn skoraði hann 42 stig þegar Houston Rockets fékk Oklahoma City Thunder í heimsókn.

Þar með hefur Harden skorað 30 stig eða meira í 28 leikjum í röð, en að þessu sinni dugði það ekki fyrir Houston, sem þó var með 26 stiga forystu um tíma í leiknum. Liðið tapaði að lokum, 112:117, og þegar upp var staðið var Paul George stigahæstur á vellinum en hann skoraði 45 stig fyrir Oklahoma.

Þetta er aðeins í annað sinn í vetur sem tveir leikmenn skora fjörutíu stig eða meira í sama leiknum. Russell Westbrook var með þrefalda tvennu fyrir Oklahoma en hann skoraði 21 stig, tók 12 fráköst og átti 11 stoðsendingar.

Milwaukee, sem er efst í Austurdeildinni, fékk óvæntan tuttugu stiga skell á heimavelli gegn Orlando Magic sem er í ellefta sæti í sömu deild.

Úrslitin í nótt:

Utah - San Antonio 125:105
Indiana - Cleveland 105:90
Atlanta - Charlotte 120:129
New York - Toronto 99:104
Boston - LA Clippers 112:123
Chicago - Washington 125:134
Memphis - New Orleans 99:90
Houston - Oklahoma City 112:117
Milwaukee - Orlando 83:103 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert