Harden skorar enn en Houston tapaði

Paul George fagnaði sigri með Oklahoma gegn Houston og skoraði ...
Paul George fagnaði sigri með Oklahoma gegn Houston og skoraði meira en Harden. AFP

James Harden hélt áfram sínu magnaða stigaskori í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt og í þetta sinn skoraði hann 42 stig þegar Houston Rockets fékk Oklahoma City Thunder í heimsókn.

Þar með hefur Harden skorað 30 stig eða meira í 28 leikjum í röð, en að þessu sinni dugði það ekki fyrir Houston, sem þó var með 26 stiga forystu um tíma í leiknum. Liðið tapaði að lokum, 112:117, og þegar upp var staðið var Paul George stigahæstur á vellinum en hann skoraði 45 stig fyrir Oklahoma.

Þetta er aðeins í annað sinn í vetur sem tveir leikmenn skora fjörutíu stig eða meira í sama leiknum. Russell Westbrook var með þrefalda tvennu fyrir Oklahoma en hann skoraði 21 stig, tók 12 fráköst og átti 11 stoðsendingar.

Milwaukee, sem er efst í Austurdeildinni, fékk óvæntan tuttugu stiga skell á heimavelli gegn Orlando Magic sem er í ellefta sæti í sömu deild.

Úrslitin í nótt:

Utah - San Antonio 125:105
Indiana - Cleveland 105:90
Atlanta - Charlotte 120:129
New York - Toronto 99:104
Boston - LA Clippers 112:123
Chicago - Washington 125:134
Memphis - New Orleans 99:90
Houston - Oklahoma City 112:117
Milwaukee - Orlando 83:103 

mbl.is