Dómarinn hrokafullur og dónalegur

James Harden fékk sóknarvillu fyrir brot á LeBron James.
James Harden fékk sóknarvillu fyrir brot á LeBron James. AFP

James Harden, einn besti körfuboltamaður heims í dag, var allt annað en sáttur við dómarann Scott Foster eftir 106:111-tap Houston Rockets fyrir Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í nótt. 

Harden er handviss um að Foster sé á móti sér og liðsfélögum sínum í Houston og segir hann ekki eiga að dæma fleiri leiki liðsins.

Harden fékk fjórar sóknarvillur á sig í leiknum og sú síðasta var sjötta villan hans. Harden þurfti því að fara á bekkinn þegar rúm mínúta var eftir af leiknum. 

„Ég tala aldrei um dómarana en Scott Foster er bara dónalegur og hrokafullur," sagði Harden, sem skoraði 30 stig í leiknum, í samtali við ESPN. „Það er ekki hægt að tala við hann í leiknum. Hvernig er hægt að vera í góðu sambandi við dómara ef þú mátt ekki tala við hann?"

„Þetta er mjög pirrandi og ég fæ örugglega sekt fyrir þessi ummæli. Það er hins vegar óþolandi að geta ekki rætt við dómara án þess að fá tæknivillu," bætti Harden við. „Þetta er eitthvað persónulegt og hann ætti ekki að dæma fleiri leiki hjá okkur."

Er þetta annað árið í röð sem leikmaður Houston gagnrýnir Foster opinberlega. Chris Paul gerði slíkt hið sama í janúar á síðasta ári. Foster var valinn versti dómari deildarinnar árið 2016, af leikmönnum og þjálfurum, í könnun hjá Los Angeles Times. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert