Kaninn fékk loksins leikheimild

Baldur Þór Ragnarsson getur loks teflt fram nýjum leikmanni liðsins …
Baldur Þór Ragnarsson getur loks teflt fram nýjum leikmanni liðsins í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Deremy Geiger, leikmaður Tindastóls í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, fékk leikheimild með liðinu í dag og verður því löglegur með liðinu gegn Val á Sauðárkróki í kvöld. Geiger hefur dvalið á Sauðárkróki undanfarnar vikur en hann kom til landsins í byrjun janúar.

Upphaflega átti hann að spila fyrsta leik Stólanna á nýju ári gegn Keflavík 6. janúar en þar sem ekki fékkst leikheimild fyrir leikmanninn hefur hann þurft að gera sér það að góðu að sitja á bekknum og hvetja liðsfélaga sína áfram í síðustu leikjum. 

Gerel Simmons, hinn Bandaríkjamaðurinn í liði Stólanna, hefur spilað mjög vel á þessu ári en hann hefur skorað 23 stig að meðaltali í þremur leikjum á þessu ári, ásamt því að taka sex fráköst að meðaltali í þessum þremur leikjum.

Tindastóll er í þriðja sæti Dominos-deildarinnar með 18 stig eftir fyrstu fjórtán leiki sína. Liðið er með jafn mörg stig og Njarðvík, KR og Haukar en Stólarnir eiga leik til góða á bæði Njarðvík og Hauka.

mbl.is