Íslensk skilaboð á minnisvarða Kobe Bryants

Gunnar Valgeirsson, fréttaritari Morgunblaðsins í Los Angeles, við minnisvarðann um …
Gunnar Valgeirsson, fréttaritari Morgunblaðsins í Los Angeles, við minnisvarðann um Kobe Bryant hjá Staples Center.

Eftir að hafa fylgst náið með körfuknattleiksmanninum Kobe Bryant í um 200 leikjum yfir tvo áratugi hér í Los Angeles, kom skyndilegur dauði hans mér mikið á óvart - rétt eins og mörgum öðrum.

Vinir mínir hér í bæ, sem og margir sjónvarpsfréttamenn ESPN- og TNT-sjónvarpsstöðvanna, höfðu alla vikuna verið að tala um hversu sérstakt andrúmsloft hefði skapast á minnisvarðanum á torginu fyrir framan Staples Center. Það væri einfaldlega eitthvað sem maður yrði að upplifa, frekar en að horfa á vídeó á skjánum.

Skilaboðin frá lesendum Morgunblaðsins og mbl.is.
Skilaboðin frá lesendum Morgunblaðsins og mbl.is.

Ég ákvað að fara snemma morguns í dag þar sem ég vildi vera á staðnum nákvæmlega viku frá slysinu, klukkan 9:34. Venjulega eru rólegheit niðri í miðbæ á sunnudagsmorgnum og ég bjóst við að geta verið þar þegar aðeins fáeinir væru á staðnum.

Þegar ég mætti um níuleytið var augljóst að sú hugsun var röng. Öll bílastæði voru full og maður varð að borga venjulega tuttugu dollara til að komast í hlað. Ég er viss um að það voru 3-4 þúsund manns á staðnum og tilfinningin var afar sérsök. Engir lögregluþjónar voru innan svæðisins og fólk talaði aðeins í lágum rómi — ef eitthvað.

Torgið framan við Staples Center í morgun.
Torgið framan við Staples Center í morgun. Ljósmynd/Gunnar Valgeirsson

Klukkan 9:34 braust allt í einu út „Kobe, Kobe, Kobe" hróp af einu svæði torgsins.

Ég skildi eftir á veggnum tvenn skilaboð frá lesendum minna dálka um NBA-körfuboltann í Morgunblaðinu og á mbl.is í gegnum árin og þau má sjá á meðfylgjandi myndum.

Önnur skilaboð frá Íslandi.
Önnur skilaboð frá Íslandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert