Öflugur sigur á toppliðinu

Russell Westbrook.
Russell Westbrook. AFP

Houston Rockets vann gríðarlega öflugan 120:116-sigur gegn sterku liði Milwaukee Bucks í NBA-deildinni í Orlando í nótt en nú styttist óðfluga í úrslitakeppnina.

Giannis Antetokounmpo átti stórleik fyrir Milwaukee, skoraði 36 stig, tók 18 fráköst og gaf átta stoðsendingar en það dugði liðinu hans ekki til.

Eftir kaflaskiptan leik tók Russell Westbrook forystuna fyrir Houston um tveimur mínútum frá leikslokum en hann skoraði 31 stig, sjö stigum meira en samherji sinn James Harden sem einnig tók sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Milwaukee er í toppsæti austurdeildarinnar með 54 sigra í 67 leikjum en Houston er í fjórða sæti vesturdeildarinnar.

Úrslitin
Brooklyn Nets - Washington Wizards 118:110
Boston Celtics - Portland Trail Blazers 128:124
Memphis Grizzlies - San Antonio Spurs 106:108
Orlando Magic - Sacramento Kings 132:116
Houston Rockets - Milwaukee Bucks 120:116
Phoenix Suns - Dallas Mavericks 117:115

mbl.is