Ósáttur með íslensk stjórnvöld

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta …
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Haraldur Jónasson/Hari

„Fyrir það fyrsta þá erum við ekki búnir að sjá reglugerðina og það er vont því án hennar er erfitt að taka endanlega ákvörðun um framhaldið,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við mbl.is í dag.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi heilbrigðisráðherra, tilkynnti í dag að öll íþróttaiðkun verði bönnuð frá og með 20. október næstkomandi, bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess vegna þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins.

Reglurnar verða í gildi í að minnsta kosti tvær vikur, jafnvel þrjár, en íþróttabann hefur verið við lýði á höfuðborgarsvæðinu frá því í byrjun október.

„Við höfum fundað stíft undanfarna daga og við gerum okkur öll grein fyrir því í hvað stefnir. Ef við erum að fara horfa fram á tveggja vikna stopp hið minnsta mun það hafa alvarleg áhrif. Menn þurfa að æfa áður en þeir geta byrjað að spila og við sjáum því fram á, ef um tveggja vikna stopp er að ræða, að byrja ekki að spila á nýjan leik fyrr en um miðjan nóvember í fyrsta lagi.

Það er líka vont því það er landsliðsgluggi hjá FIBA í nóvember, bæði hjá strákunum og stelpunum, og vegna ástandsins í heiminum í dag þurfum við að fara erlendis að spila. Liðin verða því í hálfgerðri búbblu ef svo má segja þannig. Við mun að sjálfsögðu taka þátt í öllum þeim sóttvarnaaðgerðum og stöndum með yfirvöldum í því en það hefur klárlega verið bjartara yfir okkur svo ég segi það nú bara eins og það er.“

Síðast var leikið í úrvalsdeild karla í körfuknattleik hinn 6. …
Síðast var leikið í úrvalsdeild karla í körfuknattleik hinn 6. október síðastliðinn. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sjálfsögð krafa

Formaður KKÍ er ósáttur með hversu langan tíma það hefur tekið að upplýsa íþróttahreyfinguna um stöðu mála.

„Upplýsingaflæðið er allt of hægt, sérstaklega fyrir okkur sem störfum í kringum íþróttahreyfinguna og erum að skipaleggja stór mótahald, hringinn í kringum landið. Við erum stórt samband og við höfum þurft að fresta 171 leik bara frá því í byrjun október vegna sóttvarnaregla. Inn í þessari tölu eru ekki fjölliðamót yngri flokka.

Að þurfa bíða enn og aftur eftir upplýsingum er einfaldlega ekki ásættanlegt. Það er mikið að gera hjá öllum og við berum virðingu fyrir því en núna er öll íþróttahreyfingin að bíða eftir svörum og þannig hefur það verið alla vikuna. Við þurfum að taka ákvarðanir og teikna upp ákveðnar sviðsmyndir og þess vegna finnst mér sjálfsögð krafa að upplýsingaflæðið sé mun betra frá stjórnvöldum en það hefur verið, því við erum jú öll saman í þessu,“ bætti Hannes við í samtali við mbl.is.

mbl.is