Westbrook jafnaði 47 ára met

Russell Westbrook heldur áfram að skrá sig í sögubækur NBA-deildarinnar.
Russell Westbrook heldur áfram að skrá sig í sögubækur NBA-deildarinnar. AFP

Bakvörðurinn öflugi Russell Westbrook jafnaði í nótt 47 ára gamalt met í NBA-deildinni í körfuknattleik þegar lið hans Washington Wizards vann nauman sigur á Indiana Pacers.

Westbrook náði í nótt þrefaldri tvennu í 181. skipti á ferli sínum í NBA, og jafnaði þar með met sem Oscar Robertson setti árið 1974.

Hann átti magnaðan leik fyrir Washington í nótt; skoraði 33 stig, tók 19 fráköst og gaf 15 stoðsendingar. Westbrook var þó síður en svo sá eini sem var í stuði í nótt.

Samherji hans Bradley Beal skoraði hvorki meira né minna en 50 stig og í liði Indiana áttu Domantas Sabonis og Caris LeVert sömuleiðis stórleik.

Sabonis náði þrefaldri tvennu; gerði 30 stig, tók 13 fráköst og gaf 13 stoðsendingar. LeVert var með tvöfalda tvennu þar sem hann skoraði 35 stig, tók 14 fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Þessar mögnuðu framlagstölur skiluðu sér í stórkostlegum háspennuleik sem endaði með 133:132 sigri Washington eftir framlengdan leik.

Alls fóru sjö leikir fram í NBA-deildinni fram í nótt og má þar nefna að Steph Curry var samur við sig þegar hann leiddi Golden State Warriors til 136:97 stórsigurs gegn Oklahoma City Thunder með því að skora 49 stig.

Öll úrslit næturinnar:

Indiana - Washington 132:133 (frl.)

Golden State - Oklahoma 136:97

Philadelphia - Detroit 118:104

Toronto - Memphis 99:109

Denver - Brooklyn 119:125

Utah - Houston 124:116

Portland - San Antonio 124:102

mbl.is