Stórsigur Þórsara í fyrsta leiknum á útivelli

Deane Williams reynir skot að körfu Þórs í leiknum í …
Deane Williams reynir skot að körfu Þórs í leiknum í kvöld en fyrrverandi félagi hans Callum Lawson er til varnar. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Keflavík og Þór frá Þorlákshöfn mættust í fyrstu viðureign sinni í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik í kvöld.

Keflvíkingar höfðu ekki tapað leik í úrslitakeppninni í ár og ekki tapað heimaleik í allan vetur og því nokkuð ljóst að þeir voru fyrir fram sigurstranglegri. Liðin enduðu deildina í 1. og 2. sæti og því við hæfi að þau mætist í úrslitum þó svo það sé ekki algengt í raun. Svo fór að gestirnir úr Þorlákshöfn komu sáu og sigruðu. 73:91 var lokaniðurstaða kvöldsins og Þórsarar leiða einvígið 1:0.

Þórsarar hófu leikinn töluvert betur og voru tölur eins og 15:31 að sjást í fyrri hálfleik. Eins og tölurnar gefa til kynna var það varnarleikur upp á 10 sem færði þeim slíka stöðu og þeir augljóslega farið vel yfir sóknarleik Keflvíkinga. Allt til hálfleiks voru Þórsarar með leikinn í hendi sér og voru Keflvíkingar í mestu vandræðum og svo bættist ofan á að staðan fór að fara í skapið á þeim.

Sóknarmegin nutu Þórsarar þess að Deane Williams, sem hefur séð svolítið um að binda vörn Keflvíkinga saman í teignum, var að öllu jöfnu utan teigsins að gæta Callum Lawson sem breytti algerlega víddinni í varnarleik Keflavíkur.

Gestirnir hömruðu stálið heitt í seinni hálfleik og voru mest komnir í 26 stiga forystu. Þessa forystu náðu heimamenn í Keflavík aldrei að snerta almennilega og í raun náðu þeir ekki einu sinni sínu venjulega áhlaupi þó svo smá neisti hafi myndast í leik þeirra undir lokin.

Keflvíkingar áttu einfaldlega afleitan leik í kvöld en muna skal að enginn spilar betur en andstæðingurinn leyfir. Fyrsta tap Keflvíkinga í úrslitakeppninni og á heimavelli í vetur og með þessu hafa Þórsarar komið sér í heimavallarrétt og þurfa tvo sigra í viðbót til að landa titlinum.

Gangur leiksins:: 3:4, 7:10, 10:17, 15:25, 15:29, 19:34, 26:38, 30:45, 32:51, 37:60, 43:67, 46:70, 52:74, 62:83, 70:86, 73:91.

Keflavík: Calvin Burks Jr. 22, Dominykas Milka 20/8 fráköst, Deane Williams 12/9 fráköst, Valur Orri Valsson 9/5 fráköst/6 stoðsendingar, Hörður Axel Vilhjálmsson 7/8 stoðsendingar, Ágúst Orrason 3.

Fráköst: 18 í vörn, 7 í sókn.

Þór Þorlákshöfn: Ragnar Örn Bragason 22, Larry Thomas 16/7 fráköst/9 stoðsendingar, Adomas Drungilas 15/7 fráköst/6 stoðsendingar, Callum Reese Lawson 14/6 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 12/6 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 7, Halldór Garðar Hermannsson 5/4 fráköst.

Fráköst: 25 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Gunnlaugur Briem.

Keflavík 73:91 Þór Þ. opna loka
99. mín. skorar
mbl.is