Durant og Giannis fóru á kostum í oddaleiknum

Kevin Durant og Giannis Antetokounmpo í baráttunni í leiknum í …
Kevin Durant og Giannis Antetokounmpo í baráttunni í leiknum í nótt. AFP

Kevin Durant átti stórleik í liði Brooklyn Nets þegar það þurfti að sætta sig við naumt 111:115 tap gegn Milwaukee Bucks í oddaleik liðanna í undanúrslitaeinvígi Austurdeildar NBA í nótt. Giannis Antetokounmpo fór þá fyrir Milwaukee í mögnuðum leik.

Durant skoraði 48 stig fyrir Brooklyn og tók auk þess níu fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Giannis var ekki langt undan í liði Milwaukee og náði tvöfaldri tvennu. Skoraði hann 40 stig og tók 13 fráköst, ásamt því að gefa fimm stoðsendingar.

James Harden sneri aftur í lið Brooklyn eftir að hafa glímt við meiðsli og setti niður 22 stig auk þess að taka níu fráköst og gefa níu stoðsendingar.

Með sigrinum í nótt er Milwaukee búið að vinna einvígið 4:3 og er komið í úrslit Austurdeildarinnar, þar sem liðið mætir annaðhvort Atlanta Hawks eða Philadelphia 76ers.

Í einvígi Atlanta og Philadelphia er staðan 3:3 og þurfa liðin því sömuleiðis að spila oddaleik. Sjöundi leikur þeirra fer fram á miðnætti aðfaranætur mánudags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert