Góðar fréttir fyrir Grindavík

Dagur Kár Jónsson verður áfram hjá Grindavík.
Dagur Kár Jónsson verður áfram hjá Grindavík. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Körfuknattleiksmaðurinn Dagur Kár Jónsson hefur skrifað undir nýjan samning við Grindavík og leikur áfram með félaginu á næstu leiktíð.

Dagur hefur verið í herbúðum Grindavíkur með hléum frá árinu 2016. Hann spilaði í Austurríki tímabilið 2018/2019 en hefur verið lykilmaður í liði Grindavíkur á undanförnum árum.

„Ég er virkilega ánægður að hafa gert nýjan samning og líður ótrúlega vel í Grindavík. Við erum að halda í sama kjarna fyrir næsta tímabil sem er mjög mikilvægt og eigum bara eftir að verða betri,“ er haft eftir Degi Kár í yfirlýsingu félagsins.

„Kkd. Grindavíkur lýsir yfir mikilli ánægju með að halda Degi Kár áfram í herbúðum félagsins. Dagur Kár er einn af bestu leikstjórnendum í deildinni og förum við afar spennt inn í nýtt keppnistímabil með hann áfram í gulu!“ segir einnig í yfirlýsingunni.

mbl.is