Elvar frá Litháen til Belgíu

Elvar Már Friðriksson er að ganga í raðir Antwerp Giants …
Elvar Már Friðriksson er að ganga í raðir Antwerp Giants í Belgíu. Ljósmynd/FIBA

Körfuknattleiksmaðurinn Elvar Már Friðriksson hefur yfirgefið Siauliai í Litháen til þess að ganga í raðir Antwerp Giants í Belgíu. Elvar sló í gegn í efstu deild Litháens á síðustu leiktíð og var besti leikmaður Siauliai á sínu fyrsta tímabili í deildinni.

„Það var mjög erfið ákvörðun að yfirgefa Siauliai því ég kynntist frábæru fólki hérna. Ég vil þakka öllum því okkur fjölskyldunni leið mjög vel hérna. Takk fyrir alla hjálpina. Ég mun áfram fylgjast með leikjum liðsins í framtíðinni,“ er haft eftir Elvari á heimasíðu Siaulia.

Elvar lék 36 leiki með Siuliai á síðustu leiktíð og skoraði 15,3 stig, gaf 7,5 stoðsendingar og tók 2,9 fráköst að meðaltali. Hann var valinn besti leikmaður deildarinnar í lok tímabils.

Antwerp Giants hafnaði í þriðja sæti belgísku deildarinnar á síðustu leiktíð. Liðið hefur einu sinni orðið belgískur meistari og hafnaði í þriðja sæti Meistaradeildar Evrópu árið 2019. Frá og með næstu leiktíð mun liðið spila í BNXT-deildinni sem er sameiginleg efsta deild Belgíu og Hollands.

Landsliðsmaðurinn, sem er uppalinn hjá Njarðvík, hefur einnig leikið með Denain Voltaire í Frakklandi og Borås í Svíþjóð þar sem hann varð sænskur meistari 2020. 

mbl.is