Grindvíkingurinn vonast til að spila í NBA

Jón Axel Guðmundsson í landsleik með Íslandi.
Jón Axel Guðmundsson í landsleik með Íslandi. Ljósmynd/FIBA

Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmunds­son tekur þátt í sumardeild NBA-deildarinnar í Bandaríkjunum í næsta mánuði en hann vonast til að þátttaka sín þar komi sér að hjá liði í deildinni í vetur.

Jón Axel mun leika með Phoenix Suns í Las Vegas í sumardeildinni sem verður spiluð 8. til 17. ágúst. Í sum­ar­deild NBA spila ekki hinir hefðbundnu leik­menn liðanna. Hún er hugsuð fyr­ir yngri leik­menn, ásamt því að samn­ings­laus­ir leik­menn fá tæki­færi til að sanna sig.

Körfuknattleiksmaðurinn spilaði með Fraport Skyliners í þýsku A-deildinni síðasta vetur en hann segir að Phoenix hafi verið að fylgjast með sér. „Þeir fylgdust með mér í Þýskalandi í allan vetur og hafa verið í sambandi við umboðsmanninn minn,“ sagði Jón í samtali við Vísi en hann samþykkti strax tilboð um að spila í sumardeildinni.

Þá segist hann ætla að nýta þetta tækifæri enda getur góð frammistaða í sumardeildinni skilað honum tilboði frá stóru liði í Evrópu eða jafnvel í NBA-deildinni sjálfri. „Ég ætla að nýta þetta tækifæri, gera mitt besta og ef þetta gengur ekki er ég þess fullviss að ég fái eitthvert tilboð frá Evrópu, þótt það sé í september eða október,“ bætti Jón Axel við.

Við þetta má bæta að áhugi Phoenix nær aftur til þess tíma þegar Jón Axel lék með Davidson í NCAA. Þegar ferli hans lauk í háskólakörfuboltanum var Phoenix Suns eitt þeirra liða sem var í sambandi við Jón. 

mbl.is