Meistararnir narta í hæla toppliðanna

Ameryst Alston var stigahæst hjá Val með 22 stig.
Ameryst Alston var stigahæst hjá Val með 22 stig. mbl.is/Arnþór Birkisson

Íslandsmeistarar Vals í körfuknattleik eru tveimur stigum á eftir efstu liðunum Njarðvík og Fjölni í Subway-deild kvenna eftir sigur í Grindavík.

Fresta hefur þurft leikjum að undanförnu vegna kórónuveirunnar en Grindavík og Valur gátu þó mæst í kvöld. 

Valur sigraði 73:58 en liðið var yfir að loknum fyrri hálfleik 35:26. Ásta Júlía Grímsdóttir reif niður 18 fráköst fyrir Val og skoraði 14 stig en Ameryst Alston var stigahæst með 22 stig. Edyta Ewa Falenzcyk skoraði 16 stig fyrir Grindavík og Robbi Ryan skoraði 14 stig. 

Staðan:

1. Njarðvík 18 stig

2. Fjölnir 18

3. Valur 16

4. Haukar 8

5. Keflavík 8

6. Grindavík 6

7. Breiðablik 2

Lið Skallagríms var dregið úr keppni. 

mbl.is