„Nýttum okkur meðbyrinn úr stúkunni“

Kári keyrir að körfu Tindastóls í kvöld og skorar.
Kári keyrir að körfu Tindastóls í kvöld og skorar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsmaðurinn Kári Jónsson dró vagninn í sókninni hjá Val þegar liðið vann þriðja leikinn í úrslitarimmunni gegn Tindastóli um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik og tók forystuna 2:1. 

Kári skoraði 18 stig og var stigahæstur hjá Val. Lengi vel virtist hann vera sá eini sem gat ógnað að ráði hjá Val því Tindastóll var lengi með góða forystu í leiknum. Munaði nítján stigum á liðunum í upphafi síðari hálfleiks en Valsmenn snéru leiknum sér í hag í síðasta leikhlutanum og unnu 84:79. 

„Við fórum að ná stoppum í síðasta leikhlutanum og náðum að stoppa þá nokkrum sinnum í röð. Okkur tókst að nýta hraðann og fá auðveldar körfur. Við fundum taktinn og nýttum okkur meðbyrinn úr stúkunni til að koma okkur inn í leikinn. Það var mjög fallegt,“ sagði Kári þegar mbl.is spjallaði við hann á Hlíðarenda í kvöld. 

Stólarnir voru mun betri í fyrri hálfleik en Valsmenn mun betri í þeim síðari. Við hverju má fólk búast í fjórða leiknum? 

„Það er góð spurning. Ef einhver veit það þá væri ég til í að tala við viðkomandi. Við vorum svolítið fúlir í hléi því okkur fannst þeir vera miklu ákveðnari en við. Það var eins og þá langaði meira í sigurinn og þeir voru í öllum boltum. Orkan sem við eyddum í þetta var mun meiri í síðari hálfleik og ákveðnin var meiri. Það er alltaf gott að byrja á því.“

Kári reynir að verjast Taiwo Badmus í kvöld.
Kári reynir að verjast Taiwo Badmus í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar Valsmenn sóttu í sig veðrið í síðari hálfleik þá tókst Stólunum engu að síður að halda þeim frá sér fram í síðasta leikhlutanum. Í þriðja leikhluta tókst Tindastóli að svara með þristum við og við. Fyrir vikið tókst Val ekki að koma muninum niður fyrir tíu stigin í þriðja leikhluta. Var ekki erfitt að halda þolinmæði? 

„Algerlega. Þeir settu fullt af stórum skotum í síðari hálfleik til að halda forskotinu. En við misstum leikinn ekki úr höndunum og áttum alltaf möguleika. Við náðum svo að setja saman góðar varnir og góðar sóknir. Þá kom góður kafli hjá okkur,“ sagði Kári Jónsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert