Fjórði Evrópumeistaratitill Spánverja

Lorenzo D'ontez Brown skorar fyrir Spánverja í úrslitaleiknum í kvöld.
Lorenzo D'ontez Brown skorar fyrir Spánverja í úrslitaleiknum í kvöld. AFP/Tobias Schwarz

Spánverjar unnu sinn fjórða Evrópumeistaratitil í körfuknattleik karla í kvöld þegar þeir lögðu Frakka að velli í úrslitaleik í Berlín, 88:76.

Þessa fjóra titla hafa Spánverjar unnið á sex síðustu Evrópumótum, árin 2009, 2011, 2015 og nú 2022, en þar á undan höfðu þeir tapað þremur úrslitaleikjum á fimm mótum frá 1999 til 2007.

Spánverjar eru því handhafar tveggja stórra titla því þeir eru jafnframt ríkjandi heimsmeistarar frá árinu 2019.

Spánverjar virtust ætla að hreinlega valta yfir Frakkana því þeir voru komnir í 47:26 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. En þá skoraði franska liðið sextán stig í röð og staðan var því 47:42 þegar síðari hálfleikur var nýhafinn.

Eftir þetta sveiflaðist munurinn frá þremur og upp í tíu stig lengst af. Staðan var 66:57 eftir þriðja leikhluta en Spánverjar skoruðu fimm stig í röð þegar um tvær mínútur voru eftir, komust þá í 85:70, og þar með var björninn unninn.

Juancho Hernangomez átti stórleik með Spánverjum og skoraði 27 stig. Lorenzo D'ontez Brown og Willy Hernangomez skoruðu 14 stig hvor og Jaime Fernández 13.

Evan Fournier skoraði 23 stig fyrir Frakka, Thomas Heurtel 16 og Guerschon Yabusele 13.

mbl.is