James með nýtt stigamet

Kareem Abdul-Jabbar réttir LeBron James boltann eftir að sá síðarnefndi …
Kareem Abdul-Jabbar réttir LeBron James boltann eftir að sá síðarnefndi bætti met þess fyrrnefnda. AFP/Harry How

LeBron James bætti stigametið í NBA deildinni í nótt með því að skora 36 stig í fyrstu þremur leikhlutunum gegn Oklahoma City Thunder hér í Los Angeles í nótt.

James skoraði þó aðeins tvö stig í lokaleikhlutanum þegar Thunder tók yfir leikinn og unnu gestirnir á endanum 133:130.

Með þessum stigum sló James eldra met Kareem Abdul-Jabbars, sem hætti leik 1989 eftir að hafa skorað 38.387 stig.

Þegar James skoraði körfuna sem sló metið, var stutt athöfn á miðjum leikvellinum þar sem forseti NBA, Adam Silver, og James ávörpuðu áhorfendur. „Að vera hér í návist jafn sögulegs leikmanns og Kareems, fyllir mig hógværð. Gefið honum gott klapp. ... Adam Silver og David heitnum Stern [forsetum NBA] vil ég þakka fyrir að leyfa mér að taka þátt í því sem mig dreymdi um lengi,” sagði James eftir að Silver hafði sagt fáein orð.

LeBron fagnar með liðsfélögum sínum eftir að metið er í …
LeBron fagnar með liðsfélögum sínum eftir að metið er í höfn. AFP/Ronald Martínez

Toppurinn á frábærum ferli

Endalaust er hægt að deila um þær aðstæður sem gerðu James kleift að slá þetta met: tilkoma þriggja-stiga skotsins; það að Abdul-Jabbar lék fjögur ár í háskóla áður en að hann fór í atvinnumennskuna, en James fór beint í atvinnumennskuna úr gagnfræðaskóla og bætti þar við fjórum keppnistímabilum í stigaskorun; breytingar á leikstílnum í NBA með aukinni stigaskorun, o.s.frv.

Á endanum skiptir það litlu máli varðandi metabækur deildarinnar. James er nú orðinn stighæsti leikmaðurinn frá upphafi og hann á það skilið þar sem hann er einn af bestu leikmönnunum í sögu deildarinnar. Fáir leikmenn hafa haft jafn mikil áhrif á útkomuna í úrslitakeppninni ár hvert á leikferlinum en hann.

Á einum áratugi frá 2011 til 2020 komst lið hans í lokaúrslitin átta sinnum, sem er árangur sem ekki hefur sést síðan að leikmenn Boston Celtics gerðu það fyrir 60 árum. Á þessu tímabili, sem undirritaður fjallaði um ítarlega á þessum síðum þá, var stóra spurningin í upphafi hvers keppnistímabils hvaða leikmenn James gæti laðað til Cleveland, Miami eða Los Angeles Lakers til að gera enn eina atlöguna að titlinum. 

LeBron með fjölskyldu sinni eftir leik.
LeBron með fjölskyldu sinni eftir leik. AFP/Harry How

Það er ekki eins og að James hafi verið eigingjarn leikmaður og þess vegna slegið stigaskorunarmetið. Hann hefur ítrekað á ferlinum komið liðum sínum í lokaúrslitin og er einnig mjög góður í að gefa stoðsendingar til samherja í leikjum. Hann komst nýlega í fjórða sætið í fjölda stoðsendinga leikmanna á leikferlinum, en allir aðrir leikmenn á þeim lista voru bakverðir sem sérhæfðu sig í þeim „bransa“ leiksins. 

„James brýtur allar reglur um stoðsendingar,“ sagði einn af njósnurum andstæðinga Lakers um daginn. „Hann stekkur inn í teiginn – þú átt ekki að yfirgefa gólfið áður en að þú sendir boltann – og finnur samherja á vængnum. Hann sendir fastar sendingar framhjá hausum andstæðinga, sem gerir það að verkum að samherjar hans verða ávallt að vera tilbúnir að fá sendingu frá honum. Hann virðist alltaf vita hvar allir samherjar hans eiga að vera.“

Af þessum ástæðum er ekki hægt að setja nokkurt spurningamerki við afrek kappans, og þá skoðun styður Abdul-Jabbar. Í viðtali við einn af virtustu NBA-skríbentum hér vestra hafði Jabbar þetta að segja. „Það verður skemmtilegt að sjá þetta gerast. Þegar einhver setur nýtt met í íþróttum, þýðir það einfaldlega að einhver annar hefur tækifæri á að slá það. Íþróttir eru styrktar þegar met eru slegin.“

Hann bætti því við nýlega að þegar hann sló eldra met Wilt gamla Chamberlain, hafi Chamberlain verið ókátur með að stigamet hans hafi verið slegið. Abdul-Jabbar var hins vegar staðráðinn að vera í íþróttahöllinni þegar James sló metið og heldur að hið nýja met James sé af hinu góða. 

James skorar körfuna sem bætti metið.
James skorar körfuna sem bætti metið. AFP/Harry How

Báðir þessir leikmenn eru einir af 6-8 bestu leikmönnum deildarinnar frá upphafi og það er lengd ferilsins hjá þeim báðum sem gerði þeim kleift á endanum að skora öll þessi stig.

Kappinn ávallt að verða betri alhliða leikmaður

James kom inn í deildina árið 2003 eftir að hafa verið metinn sem besta „efnið“ í deildinni í áratugi – í raun síðan Abdul-Jabbar á sínum tíma kom inn í deildina eftir að hafa leitt UCLA háskólann til þriggja meistaratitla í röð (hefðu orðið fjórir ef nýliðum hefði verið leyft að leika á þeim árum í háskólaboltanum).

Sérstaklega þar sem James sleppti því að fara í háskólaboltann. Hann hafði bæði líkamlega hæfileika og leikstíl sem flestir njósnarar NBA-liðanna höfðu aldrei áður séð hjá leikmanni í gagnfræðaskóla. Jafnvel Kobe Bryant var ekki metinn jafn hátt af þessum sérfræðingum og James.

Ferill James hefur uppfyllt allar þær væntingar sem til hans voru gerðar, sem er ekki svo lítið þegar þær eru jafn miklar og hann stóð frammi fyrir sem nýliði. 

Á ferlinum notaði hann hvert nýtt keppnistímabil til að bæta leik sinn og aðlaga leik sinn að breyttum leikstíl deildarinnar yfir árin. Líkamsstyrkur hans hefur verið lykillinn að velgengni hans í gegnum árin. Hann er ekki leikmaður sem lifir á því að taka löng skot af færi, heldur er aðalsmerki hans hversu góður hann er í gera atlögu að körfunni.

Snerpa James í að komast framhjá varnarmönnum úti á vellinum, gerir honum kleift að stökkva að körfunni og taka snertingu og ná í víti á leiðinni – en samt skora. „Þegar ég kemst af stað getur enginn  stoppað mig.“

Þegar San Antonio Spurs tóku þennan styrkleika af honum í Lokaúrslitunum 2007 með því að loka fyrir atlögu í gegnum teiginn, neyddu Spurs hann til að skjóta alltaf utan af vellinum. James hitti aðeins úr 16% af skotum sínum fyrir utan teiginn í leikseríunni og Spurs unnu fjóra fyrstu leikina og tóku titilinn. Eftir það lagði James mikla áherslu á að bæta skot sín utan af vellinum og það er sú vinna sem á endanum gerði hann óstöðvandi næstu árin. 

Hann hefur nú slegið stigamet Jabbars, en þráir að vinna einn titilinn í viðbót. Það gæti orðið erfitt á næstu tveimur til þremur árum með Lakers – eins ruglaður og reksturinn á því apparati er orðinn þessa dagana.

mbl.is