Há sekt fyrir að kasta hitapoka að dómara

Jamal Murray ósáttur við að fá ekki dæmt brot í …
Jamal Murray ósáttur við að fá ekki dæmt brot í öðrum leik liðanna aðfaranótt þriðjudag. AFP/Matthew Stockman

Jamal Murray, leikmaður Denver Nuggets í NBA-deildinni í körfuknattleik, hefur verið sektaður um 100.000 bandaríkjadali, jafnvirði 14 milljóna íslenskra króna, af deildinni fyrir nokkuð óvenjulegt atvik.

Murray lét óánægju sína í ljós í öðrum leikhluta annars leiks Denver gegn Minnesota Timberwolves í undanúrslitum Vesturdeildarinnar þegar hann kastaði handklæði og svo hitapoka í átt að einum dómara leiksins.

Þegar atvikið átti sér stað sat Murray á varamannabekknum og var leikurinn í gangi.

Minnesota tók hann alfarið úr umferð í leiknum, sem fór illa í bakvörðinn og var Murray einnig ósáttur við dómgæslu í sinn garð.

Slapp við leikbann

Þrátt fyrir að hafa fengið háa sekt slapp Murray við leikbann og getur því tekið þátt í þriðja leik liðanna aðfaranótt laugardags.

Minnesota er 2:0 yfir í einvíginu, en vinna þarf fjóra leiki til þess að tryggja sér sæti í úrslitum Vesturdeildar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert