Tilþrif í Endurocross í Skagafirði

Strákarnir á verðlaunapalli.
Strákarnir á verðlaunapalli. Ljósmynd/ Þórir Tryggvason

Fyrsta umferðin í Endurocross var haldin í gær á Sauðárkróki. Keppnin fór fram í Reiðhöllinni Svaðastaðir í Skagafirði. Haukur Þorsteinsson á Kawasaki 450f var sigurvegari mótsins. Kári Jónsson sem var valinn aksturíþróttamaður ársins 2010 endaði í öðru sæti á TM Racing 250t. Daði Erlingsson á Yamaha 250t kom svo þriðji í mark eftir æsispennandi keppni. Haukur og Daði áttu jafnan og góðan akstur í gegnum undanrásirnar

Fyrir mótið var Kári Jónsson talinn líklegastur en hann lenti í erfiðleikum í úrslitunum og varð langt á eftir. Hann náði hinsvegar að vinna sig upp í fyrsta sæti. Þegar um tvær beygjur voru eftir náði Haukur hinsvegar að stinga sér fram úr og tryggja sér titilinn.

Þetta er í fyrsta skiptið sem Endurocross mót er haldið á Sauðárkróki og því var mikil tilhlökkun í keppendum sem og áhorfendum, en stúkan í reiðhöllinni var þétt setin. Þá voru veitt verðlaun fyrir bestu tilþrifin í brautinni. Sigurður Ingi Einarsson þótti skara framúr en hann skemmti áhorfendum oft á tíðum með tilþrifamiklum akstri. Sigurður ók á Kawasaki KX 250 2T.

Sigurvegarinn, Haukur á græna hjólinu
Sigurvegarinn, Haukur á græna hjólinu Ljósmynd/ Þórir Tryggvason
Það gekk mikið á í reiðhöllinni.
Það gekk mikið á í reiðhöllinni. Ljósmynd/ Þórir Tryggvason
mbl.is