Japanir með flest gullverðlaun

Daiki Hashimoto frá Japan sigraði í fimleikum karla í dag.
Daiki Hashimoto frá Japan sigraði í fimleikum karla í dag. AFP

Japanir hafa tekið forystuna í keppninni um gullverðlaunin á Ólympíuleikunum í Tókýó en þeir hafa nú fagnað 13 sigrum á heimavelli eftir keppni dagsins í dag.

Japanir hafa auk þess fengið fern silfurverðlaun og fimm bronsverðlaun.

Kínverjar koma næstir með 12 gullverðlaun og auk þess sex silfurverðlaun og níu bronsverðlaun.

Bandaríkjamenn eru í þriðja sæti með 11 gullverðlaun en þeir hafa hinsvegar fengið flest verðlaun allra því silfurverðlaun þeirra eru 11 talsins og bronsverðlaunin 9.

Rússar (7), Ástralir (6) og Bretar (5) koma næstir en aðrar þjóðir með gullverðlaun eru Suður-Kórea (4), Þýskaland og Frakkland (3), Holland, Kanada, Ungverjaland, Slóvenía og Kósóvo (2) og ein gullverðlaun hafa fengið Ítalía, Sviss, Taívan, Brasilía, Georgía, Rúmenía, Serbía, Austurríki, Hong Kong, Túnis, Króatía, Eistland, Úsbekistan, Bermúda, Ekvador, Fídji-eyjar, Íran, Lettland, Noregur, Filippseyjar og Taíland.

mbl.is