Danir ekki í vandræðum með Norðmenn

Mikkel Hansen fagnar einu af átta mörkum sínum í morgun.
Mikkel Hansen fagnar einu af átta mörkum sínum í morgun. AFP

Heims- og ólympíumeistarar Danmerkur unnu þægilegan 31:25-sigur gegn nágrönnum sínum frá Noregi í fjórðungsúrslitum handknattleiks karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun.

Þrátt fyrir lokatölur var mikið jafnræði með liðunum í fyrri hálfleiknum og komust Norðmenn til að mynda í þrígang einu marki yfir.

Danir höfðu eins marks forystu í leikhléi, 13:12.

Í síðari hálfleik hertu Danir hins vegar tökin og juku forystu sína jafnt og þétt. Mest náði liðið sjö marka forystu, 30:23, og vann að lokum öruggan sex marka sigur.

Markahæstir í liði Dana voru Mikkel Hansen og Jacob Holm, báðir með átta mörk. Sander Sagosen mátti ekki minni maður vera og skoraði einnig átta mörk.

Danmörk er þar með komið áfram í undanúrslitin þar sem liðið mætir Spáni.

mbl.is