Lærisveinar Alfreðs sáu ekki til sólar - fyrsta Afríkuliðið í undanúrslit

Alfreð Gíslason, þjálfari Þýskalands, svekktur á hliðarlínunni í leiknum í …
Alfreð Gíslason, þjálfari Þýskalands, svekktur á hliðarlínunni í leiknum í dag. AFP

Þýskaland, sem Alfreð Gíslason þjálfar, er úr leik á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir að hafa tapað illa, 26:31, fyrir Egyptalandi í fjórðungsúrslitunum í handknattleik karla í dag.

Egyptar voru með yfirhöndina allan tímann og leiddu með fjórum mörkum 12:16, í hálfleik.

Þjóðverjar náðu aldrei að vinna sig almennilega inn í leikinn í síðari hálfleiknum og lentu mest sjö mörkum undir.

Fimm marka tap var staðreynd á endanum og Egyptar fljúga í undanúrslitin eftir frábæra frammistöðu.

Í undanúrslitunum mun liðið mæta Frakklandi og er þetta í fyrsta sinn í sögu Ólympíuleikanna sem lið frá Afríku kemst svo langt í keppninni.

Karim Hendawy átti frábæran leik í marki Egypta og varði 18 skot af 44 sem hann fékk á sig, sem gerir 41 prósent markvörslu.

Að sama skapi vörðu markverðir Þjóðverja lítið sem ekkert, aðeins fjögur skot í heildina.

Yahia Omar og Ali Mohamed voru markahæstir í liði Egypta með fimm mörk hvor.

Johannes Golla og Julius Kühn voru markahæstir Þjóðverja með sex mörk hvor.

mbl.is