Kristmann, Helga og Sigurjón sigruðu í bogfimi

Bogfimimót Reykjavíkurleikanna fór fram í Íþróttahúsi fatlaðra, Hátúni 14, í dag. Keppendur voru 18 talsins og komu frá Akri, Boganum, Skotíþróttafélaginu Drekanum, Ungmennafélaginu Eflingu, Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík og færeyska félaginu Tambar.

Keppt var bæði í trissubogaflokki og sveigbogaflokki. Keppendur skutu hefðbundnum 2x30 örvum og í úrslit komust efstu átta keppendurnir í hverjum flokki. Þeim átta var síðan raðað niður í tveggja manna viðureignir.

Í trissuboga karla voru það Kristmann Einarsson, Boganum, og Færeyingurinn Jógvan Nickassen, Tambar, sem börðust um gullið. Kristmann bar sigur úr býtum, 6-4. Hlynur Freyr Þorgeirsson, Boganum, og Guðjón Einarsson, Boganum, mættust í baráttunni um bronsið og hafði Guðjón betur 6-2.

Í trissuboga kvenna voru tveir keppendur, þær Rakul Dam, Tambar, og Helga Kolbrún Magnúsdóttir, Boganum. Helga sigraði Rakul 6-0. 

Í sveigboga karla kepptu um gullið þeir Sigurjón Atli Sigurðsson, ÍFR, og Bastian Strange, Skotíþróttafélaginu Drekanum. Þeir háðu harða keppni og þurfti bráðabana til að knýja fram úrslit. Þá skýtur hvor um sig einni ör og sá vinnur sem nær er miðjunni. Fór það svo að Sigurjón Atli hafði betur 7-5. Það voru þeir Tómas Gunnarsson, Umf. Eflingu, og Bjarni Baldvinsson, Boganum, sem áttust við í viðureigninni um bronsið og sigraði Tómas 6-0. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert