Dómararnir rétt náðu í hús

Júlía Rós Viðarsdóttur keppandi í Advanced novice flokknum í listskautakeppni …
Júlía Rós Viðarsdóttur keppandi í Advanced novice flokknum í listskautakeppni Reykjavíkurleikanna 2020. Hafsteinn Snær

Listskautakeppni Reykjavíkurleikanna hófst í dag í Skautahöllinni í Laugardal. Keppnin fór vel af stað þrátt fyrir að mikið hafi gengið á síðasta sólarhringinn vegna samgöngutruflana. Samkvæmt upplýsingum frá Skautasambandi Íslands var tvísýnt að dómararnir sem fengnir höfðu verið til að dæma keppnina kæmust yfirhöfuð til landsins. Seinka þurfti keppninni af þessum sökum um sjö klukkustundir og mætti hluti dómaraliðsins beint af flugvellinum í höllina. Keppni lauk því ekki fyrr en um 11 í kvöld.

Keppnin í dag var í Interclub-hluta mótsins þar sem keppt er í yngri flokkum eftir íslenskum keppnisreglum.

Fyrstu keppendur dagsins voru þeir yngstu í flokkum chicks (hnáta) og cubs (telpna). Ekki er raðað í verðlaunasæti í þessum flokkum heldur fá allir þátttökuviðurkenningu. Eftir heflunarhlé var svo komið að hópi Basic Novice (grunnstigi stúlkna) og í verðlaunasætin röðuðu sér þrjár stúlkur frá Kristal Ice-klúbbnum í Riga í Lettlandi þar sem Kira Baranovska hlaut gullið, Polina Voronko silfur og Veronika Lucko bronsið.

Því næst hófst keppni í stuttu prógrammi í Advanced novice (efsta stig stúlkna) sem er yngsti alþjóðlegi flokkurinn. Keppendur voru níu talsins og keppt er með tvö prógrömm; stutt tækniprógramm fyrri daginn og frjálst prógramm þann seinni. Í stutta prógramminu stóð úrslitaröð eftir daginn þannig að hin svissneska Anna Albisetti var efst með 35,03 stig. Í öðru sæti situr Íslandsmeistarinn í þessum flokki, Júlía Rós Viðarsdóttir, með 29 stig slétt og í því þriðja Lucy Gardnier frá Bretlandi með 28,96 stig. Keppt verður með frjálst prógramm á morgun og getur allt gerst þar sem innan við stig skilur að stúlkurnar í öðru til fimmta sæti.

Síðustu keppnisflokkar dagsins voru Intermediate Novice (miðstig stúlkna) og Intermediate Ladies (miðstig kvenna). Stúlknahópurinn hafði skráða sjö keppendur og svo fór að Danniella McGarrity frá Bretlandi stóð uppi sem sigurvegari með 30,90 stig. Önnur varð Sofija Porojkova frá Lettlandi á 29,51 stigi og bronsið hlaut hin íslenska Lena Rut Ásgeirsdóttir með 26,87 stig. Síðastar á ísinn voru síðan Intermediate Ladies. Allir keppendur voru frá Íslandi og röðuðu þær sér eftirfarandi: Í fyrsta sæti varð Þórunn Lovísa Löve með 32,41 stig, önnur varð Edda Steinþórsdóttir með 26,47 stig og í þriðja sæti varð Anna Björk Benjamínsdóttir með 24,81 stig.

Úrslit í Interclub-keppni má finna hér

Úrslit í International-keppni hér.

mbl.is