Fjórar greinar í rafíþróttum á Reykjavíkurleikunum um helgina

Rafíþróttakeppni RIG2020
Rafíþróttakeppni RIG2020

Rafíþróttir verða í fullu fjöri á Reykjavíkurleikunum um helgina en keppt er í Counter-Strike: Global Offensive, League of Legends, Rocket League og FIFA. 

Samtals taka 160 manns þátt í rafíþróttagreinum leikanna og hefur aldrei verið keppt í jafn mörgum rafíþróttum á RIG áður.  Vegna kórónuveirunnar er keppt á netinu og hafa leikar staðið yfir undanfarna daga í öllum greinum og er aðeins handfylli af liðum eftir í keppninni.

Úrslitin í FIFA fara fram í kvöld, föstudagskvöld, í beinni útsendingu á Stöð 2 esports og hefst bein útsending klukkan 20:00. Eins og stendur eru sex keppendur eftir í mótinu, þar á meðal íþróttamaður ársins 2020 hjá Fylki, FIFA spilarinn Aron Þormar Lárusson. Mikið er undir í mótinu en landslið Íslands í FIFA verður valið út frá niðurstöðum mótsins og fyrri móta.

Úrslitin í League of Legends mun fara fram á morgun, laugardag, klukkan 17:00 en þar mætast liðin VITA LoL og Excess Success í úrslitaleiknum. Bæði liðin hafa með árangrinum tryggt sér pláss á Telia Masters Spring 2021, sem er alþjóðleg undankeppni Norður-Evrópudeildarinnar, NLC, í League of Legends.

Keppt verður eins dags bikarmót í Rocket League á morgun, laugardag, og verða úrslitin í beinni á Stöð 2 esports rétt á undan úrslitum CS:GO.

Úrslitin í CS:GO munu fara fram á morgun, laugardag, klukkan 20:00 í beinni útsendingu á Stöð 2 Esports. Í mótinu keppti erlent lið, frá Portúgal, í fyrsta sinn á íslensku móti og mótið  er því farið að vekja athygli út fyrir landssteinana. Þar mæta stórmeistararnir í Dusty erkifjendum sínum í KR í úrslitaviðureigninni. Ná KR-ingarnir loksins að hafa betur gegn Dustymönnum í úrslitaleik?

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Reykjavíkurleikanna, rig.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert