Fullyrt að Ragnhildur hætti hjá FL Group

Ragnhildur Geirsdóttir.
Ragnhildur Geirsdóttir. mbl.is/Golli
Fullyrt er að Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri FL Group, hætti störfum hjá félaginu þegar gengið verður frá yfirtöku þess á flugfélaginu Sterling, en búist er við að það gerist undir vikulokin. Sjónvarpið sagði frá þessu í gærkvöldi og í dag kemur fram í frétt dönsku Ritzau fréttastofunnar, að Ragnhildur hafi lýst þessu yfir í gær.

Ritzau vitnar til fréttabréfsins Travel People þar sem komi fram, að Ragnhildur hafi í raun hætt störfum hjá FL Group í gærkvöldi þar sem hún geti ekki sætt sig við aðdraganda kaupa FL Group á Sterling. Haft er eftir Ragnhildi, að Hannes Smárason, stjórnarformaður FL Group, hafi stýrt þessum samningaviðræðum og hún vilji ekki axla ábyrgð á kaupunum á Sterling.

Travel People hefur eftir heimildarmönnum, sem þekkja vel til innan FL Group, að félagið muni greiða um 15 milljarða íslenskra króna fyrir Sterling og það telji Ragnhildur allt of hátt verð.

Ragnhildur var ráðin forstjóri FL Group í mars.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir