Skólar svara ekki kalli iðnaðarins

Jón Ágúst Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Marorku.
Jón Ágúst Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Marorku. mbl.is

Þó að íslenskt menntakerfi hafi tekið stórstígum framförum á síðari hluta 20. aldar hefur því miður ekki tekist að svara kalli iðnaðarins eftir sérmenntuðu fólki, að sögn Jóns Ágústs Þorsteinssonar, forstjóra Marorku. Í ávarpi sínu á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins fyrir helgi sagði hann að þegar betur væri að gáð blasti við verulegt misvægi milli framboðs og eftirspurnar á atvinnumarkaði hér á landi.

„Í atvinnufyrirtækjum landsins eru að verða til störf sem illa gengur að manna. Það er napurt til þess að hugsa á sama tíma og atvinnuleysi mælist nú meira hér á landi en áður. Skortur á rétta fólkinu er einnig átakanlegur því að hann hindrar vöxt fyrirtækja hér á landi og stöðvar frekari sköpun nýrra atvinnutækifæra.“

Sagði hann að við úrlausn á því risavaxna vandamáli, sem atvinnuleysið væri í dag, þyrfti að vinna skipulega. Í fyrsta lagi þyrfti að grípa til skammtímaráðstafana til að fækka atvinnulausum. „Í öðru lagi þarf skipulag atvinnuuppbyggingar og menntamála að vera með þeim hætti að atvinnulífið bjóði stöðugt störf fyrir sérmenntað vinnuafl annars vegar og hins vegar að menntakerfið skili einstaklingum sem með framlagi sínu skapi forsendur fyrir enn meiri verðmætasköpun.“

Hugverkaiðnaðurinn, sem nú einn og sér skapar um 10.000 störf, gæti samkvæmt könnun SI bætt við sig allt að 1000 störfum á ári ef vel væri á haldið. „Sannleikurinn er einfaldlega sá að ríflega helmingur atvinnulausra á landinu hefur litla sem enga menntun umfram grunnskólann. Að óbreyttu eru þeir ekki í stakk búnir að ganga í þau störf sem geta staðið til boða í hugverkageiranum.“

Benti Jón Ágúst á að árlega greiddi atvinnulífið, stofnanir og ríkið 25 til 28 milljarða króna í atvinnuleysisbætur. „Með aðeins broti þeirra fjármuna væri hægt að lyfta grettistaki í starfs- og endurmenntun en til þess þarf samstarf allra sem að málum koma, þ.e. fyrirtækja, ríkisins, samtaka atvinnulífsins og einstaklinga.“ Nefndi hann sem dæmi Orkustjórnunarskóla Marorku, sem annast starfsfræðslu fyrirtækisins með góðum árangri. Hvatti hann fyrirtæki til að stofna skóla í samvinnu við Vinnumálastofnun og opna skólann fyrir fólki í atvinnuleit.

„Vegna skorts á atvinnustefnu hefur menntakerfið lagað sig að tilviljanakenndri og innihaldslítilli þenslu. Afleiðingin er sú að þegar netbólurnar, fasteignabólurnar eða bankabólurnar springa, stöndum við bæði frammi fyrir atvinnuleysi og skorti á sérhæfðu vinnuafli í þeim greinum sem líklegastar eru til að skapa ný og verðmæt störf. Með mótun skýrrar atvinnustefnu þar sem stjórnvöld leggja fram áætlanir til a.m.k. tuttugu ára um hvernig þau hyggjast ráðstafa fjármunum til að stuðla að tilurð nýrra starfa – skapast forsendur menntastofnana til að gera eigin áætlanir til að mæta þeirri eftirspurn sem slík atvinnustefna mun skapa.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka