Hafði ekki látið framkalla frá 2006

Friðrik Guðjónsson áttaði sig á að nýja tegund af ljósmyndaframköllun …
Friðrik Guðjónsson áttaði sig á að nýja tegund af ljósmyndaframköllun vantaði þegar hann sá að allir myndarammarnir í íbúðinni voru tómir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það minnir ögn á kvikmynd eftir Ingmar Bergman þegar Friðrik Guðjónsson lýsir því hvernig hugmyndin að Prentagram kviknaði. „Ég sat heima hjá mér og horfði á alla tómu myndarammana,“ segir hann.

„Það rann upp fyrir mér að þó ég hefði verið duglegur að taka myndir árin á undan þá hafði ég ekki farið með myndir í framköllun síðan 2006. Það hafði einfaldlega verið of mikil fyrirhöfn að fara með stafrænu myndirnar í framköllun því það kallaði á að brenna myndirnar fyrst á geisladisk, eða setja á minniskubb, aka á staðinn og fara svo aðra ferð seinna til að sækja útprentaðar myndirnar.“

Útkoman var frekar óheimilislegt heimili, engar nýlegar myndir af vinum og ættingjum á veggjum, eða uppi í hillu. Það hvarflaði að Friðriki að þarna væri kominn vandi sem hægt væri að leysa með nýrri tegund framköllunarþjónustu.

Úr símanum eða tölvunni

Verslunarmannahelgina 2013 lítur Prentagram dagsins ljós. Er um að ræða prentþjónustu sem tekur við myndum á þægilegan og einfaldan hátt, yfir netið, og sendir svo í pósti til viðskiptavinarins. „Hægt er að draga myndirnar beint inn á þar til gert svæði á heimasíðunni okkar, úr tölvunni, símanum eða spjaldtölvunni og senda okkur beint,“ útskýrir Friðrik.

„Okkar vinsælasta vara eru myndir framkallaðar á 10x10 cm pappír sem hafa á sér þetta skemmtilega Instagram-yfirbragð en einnig fást myndirnar framkallaðar í hefðbundinni ljósmyndastærð. Við getum líka prentað myndirnar á tækifæriskort og póstkort, gert ljósmyndabækur, sett myndina í hálsmen eða rammað inn í stóra og smáa ramma, fallega íslenska smíði.“

Inn um lúguna næsta dag

Segist Friðrik ekki aðeins leggja áherslu á að auðvelda fólki að eignast sínar uppáhalds stafrænu myndir á föstu formi, heldur á þjónustan að vera hröð og fumlaus. „Við eigum í nánu og góðu samstarfi við Póstinn og myndir sem berast til okkar eru í flestum tilvikum komnar inn um lúgu viðskiptavinarins næsta virka dag.“

Samstarfið við Póstinn hefur tekið á sig ýmsar myndir. „Við hleyptum af stokkunum póstkortagerð í samvinnu við Póstinn og kynntum þessa þjónustu með því að bjóða 2.000 frí póstkort í gegnum Prentagram á 17. júní. Þannig gátu viðskiptavinir sent vinum og vandamönnum um land allt kveðju í tilefni af afmæli lýðveldisins. Viðtökurnar voru mjög jákvæðar og á síðuna komu bæði innlendir notendur og Íslendingar búsettir erlendis sem notuðu tækifærið til að koma vinalegri orðsendingu til skila.“

Af svipuðum toga er jólakortaþjónusta Prentagram sem Friðrik segir að hafi vakið mikla lukku síðustu jól. „Með nokkrum smellum gat fólk látið útbúa öll jólakortin með persónulegri mynd og kveðju og fengið umslögin og jafnvel frímerkin send strax heim.“

Eigulegar minningar

Framköllunin hjá Prentagram er ögn dýrari en hefðbundin filmuframköllun en Friðrik segir gæðin meiri í myndunum hjá Prentagram, notaður er þykkur og vandaður pappír og myndirnar gerðar með fingrafaraheldri áferð. „Þetta eru myndir sem fólk má vera óhrætt við að hafa í höndunum og fletta í gegnum án þess að þær láti á sjá.“

Í fyrstu lét Friðrik prenta myndirnar í lítilli prentsmiðju en eftirspurnin fór fljótlega fram úr afkastagetu prentsmiðjunnar svo Prentagram fjárfesti í sínum eigin prentvélum. Á háannatíma, eins og um síðustu jól, störfuðu sex manns hjá fyrirtækinu við prentun og frágang pantana. Segir Friðrik reksturinn hafa staðið undir sér frá fyrsta degi.

Vill Friðrik að viðskiptavinir Prentagram temji sér að panta eins og tíu myndir í mánuði, velja þá bestu myndir mánaðarins og eiga til öruggrar varðveislu ef harði diskurinn myndi bila eða snjallsíminn týnast. „Svo er líka gaman að nota tækifærið og kannski láta senda í leiðinni nokkrar myndir af barnabörnunum til afa og ömmu.“

Snjallsímarnir virkjaðir á viðburðum

Hugbúnaðurinn á bak við Prentagram er hugarsmíð Friðriks en var forritaður af íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu ReonTech. Segir Friðrik að tekist hafi sérlega vel til við gerð bæði vefsins og bakendakerfisins. ReonTech gerði einnig nýstárlegan hugbúnað fyrir Prentagram sem fengið hefur heitið Frelsaðu myndirnar.

„Frelsadumyndirnar.is er hægt að nota í veislum, á ráðstefnum eða sýningum til að varpa beint upp á skjá myndum sem gestir taka á sína eigin snjallsíma. Tengist forritið við Instagram og fiskar sjálfkrafa upp myndir sem fólk sendir þangað inn og merkir viðburðinum,“ útskýrir Friðrik. „Útkoman getur verið sérega skemmtileg og sýnir viðburðinn frá ótal mörgum sjónarhornum nánast í rauntíma um leið og til verður myndræn heimild um samkomuna. CCP notaði t.d. þessa þjónustu á ráðstefnunni EVE-FanFest í Hörpu fyrr á árinu og var myndum frá gestunum sjónvarpað um allt hús.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK