Olíuverð lækkar eftir samkomulag

Utanríkisráðherrar stórveldanna sex fagna nýju samkomulagi um kjarnorkuáætlun Írans.
Utanríkisráðherrar stórveldanna sex fagna nýju samkomulagi um kjarnorkuáætlun Írans. AFP

Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði um meira en 2% eftir að tilkynnt var um í morgun að samkomulag hefði náðst í Vín um kjarnorkuáætlun Írans.

Verð á Brent-hráolíu lækkaði um 1,15 dal eftir að fregnir bárust af samkomulaginu og stendur nú í 56,7 dölum á tunnu.

Samkomulagið kveður á um að takmarkanir verði settar á kjarnorkuáætlun Írana, þeir dragi úr auðgun úrans og heiti því að koma sér ekki upp kjarnorkuvopnum. Á móti kemur munu stórveldin sex aflétta viðskiptaþvingunum gagnvart landinu.

Ekki er enn vitað hvenær þvinganirnar, sem hafa haft skaðleg áhrif á íranska hagkerfið, verði afnumdar. Er búist við því að olíuframleiðsla Írans muni stóraukast í kjölfarið.

25 greinendur sem Reuters ræddi við telja að Íranir geti aukið olíuútflutning sinn um næstum því 60% á einu ári.

Tólf þeirra hafa trú á því að Íranar geti aukið framleiðsluna um 250 þúsund tunnur á dag á fyrstu sex mánuðunum eftir að þvinganirnar verða afnumdar. Átta sérfæðingar spá því að framleiðslan geti aukist um það sem jafngildir 500 þúsund tunnum á dag.

Eftirlitsmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna vilja sjá til þess að stjórnvöld í Íran fylgi samkomulaginu áður en efnahagsþvingunum verður aflétt. Bijan Zanganeh, olíumálaráðherra Írans, segist hins vegar fullviss um að landið geti hámarkað afköst sín mjög fljótlega.

Samkvæmt samkomulaginu munu eftirlitsmennirnir fá aðgang að kjarnorkustöðvum Írana.

Sarosh Zaiwalla, lögfræðingur sem sérhæfir sig í efnahagsþvingunum, segir að tækifærin séu mikil. „Þvinganirnar hafa lamað olíuframleiðslu Írans, helmingað olíuútflutning og dregið verulega úr nýjum þróunarverkefnum.

Utanríkisviðskipti og fjárfestingar munu gera Írönum það kleift að ná fram mikilli skilvirkni og lækka framleiðslukostnaðinn,“ segir hún.

Edward Morse, sérfræðingur hjá bankanum Citi í New York, segir að eftir litla fjárfestingu á undanförnum árum, þá muni það taka Írani langan tíma að auka útflutning sinn og ná hámarksafköstum.

Sérfræðingar gera fastlega ráð fyrir því að aðeins örlítil aukning á olíuframleiðslu Írana muni leiða til lægra heimsmarkaðsverðs á olíu. Olíuframleiðsla á heimsvísu sé nú þegar umfram eftirspurn.

Frétt mbl.is: Samkomulag náðist við Íran

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK