Fá neytendur líka leiðréttingu?

AFP

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, spyr hvort neytendur fái líka leiðréttingu en í nýjum búvörusamningi er gert ráð fyrir því að magntollar á osti ofl. hækki. Þetta kemur fram á vef Félags atvinnurekenda.

Í nýundirrituðum búvörusamningi um starfsskilyrði nautgriparæktar er ákvæði um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra muni beita sér fyrir því að breyta magntollum á mjólkur- og undanrennudufti og ostum „til sama raunverðs og gilti í júní 1995.“ Mjólkur- og undanrennuduft er meðal annars notað til ostaframleiðslu, sælgætisframleiðslu og í ýmsum öðrum matvælaiðnaði. Eini framleiðandi þess hér á landi er Mjólkursamsalan.

 „Samkvæmt samningnum var leyft að flytja inn allt að 5% innanlandsneyslu á ýmsum búvörum og var þá miðað við neysluna eins og hún var á árunum 1986-1988. Þetta neysluviðmið hefur ekkert breyst frá því WTO-samningurinn tók gildi – það er enn leyft að flytja inn 5% neyslunnar eins og hún var á þessu tímabili. Ef á að uppreikna tollverndina fyrir innlenda framleiðendur mjólkurvara, er þá ekki sanngjarnt að uppreikna líka innflutningsheimildirnar í þágu neytenda? Það myndi til dæmis þýða að leyfa yrði innflutning á tæplega 300 tonnum af ostum á lægri tollum, miðað við núverandi innanlandsneyslu, í stað rúmlega 100 tonna, sem eru miðuð við neysluna fyrir nærri 30 árum,“ segir Ólafur.

Tímapunkturinn 1995 er valinn vegna þess að þá tók samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), öðru nafni GATT-samningurinn, gildi á Íslandi. Fram að því hafði einfaldlega verið bannað að flytja inn ýmsar búvörur en með gildistöku samningsins var það ekki lengur heimilt.

„ Í stað innflutningsbannsins komu því ofurtollar, nógu háir til að engum manni dytti í hug að reyna að flytja inn viðkomandi búvörur. Jafnframt voru í samningnum ákvæði um að stjórnvöld yrðu að leyfa innflutning á takmörkuðu magni af búvörum á lægri tollum, svo að íslenskur landbúnaður fengi einhverja samkeppni,“ segir á vef FA.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir