Blússandi hagvöxtur áfram

Ísland í dag.
Ísland í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Hagstofa Íslands spáir 4,3% hagvexti árið 2017 og um 2,5–3,0% árlega árin 2018–2022. Talið er að landsframleiðsla hafi aukist um 5,9% árið 2016 og að fjárfesting hafi aukist um 22,7% í fyrra.

Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út endurskoðaða þjóðhagsspá að vetri í ritröð sinni, Hagtíðindum. Spáin nær yfir árin 2016 til 2022.

„Mikil umsvif eru í íslenskum þjóðarbúskap um þessar mundir en neysla, fjárfest­ing og utanríkisverslun hafa verið í örum vexti undanfarin misseri. Nýjustu niður­stöður þjóðhagsreikninga sem spáin byggist á ná til þriðja ársfjórðungs 2016,“ segir í frétt Hagstofu Íslands.

Einkaneysla aukist um 5,9%

Einkaneysla er talin hafa aukist um 7% árið 2016 en gert er ráð fyrir að hún aukist um 5,9% árið 2017, 3,9% árið 2018 og um 2,5–2,9% á ári seinni hluta spátímans. Reiknað er með að samneysluvöxtur verði áfram hóflegur, eða sem nemur 1,5% árlega.

„Öll skilyrði hafa ýtt undir aukningu neyslu undanfarin misseri, kaupmáttur launa og ráð- stöfunartekjur hafa aukist mikið og gengi krónunnar styrkst, olíuverð verið lágt og ýmis aðflutningsgjöld verið afnumin. Því er spáð að þessi þróun verði svipuð á næstunni, að kaupmáttur aukist umtalsvert og hækkun ráðstöfunartekna veiti svigrúm fyrir enn meiri aukningu neyslu,“ segir í þjóðhagsspánni.

Fjárfesting er talin hafa aukist um 22,7% árið 2016 og spáð er að hún aukist um 12,6% árið 2017 en úr henni dragi eftir það. Gert er ráð fyrir talsverðri aukningu íbúða­fjárfestingar og opinberrar fjárfestingar árin 2017 og 2018.

Spá aukinni verðbólgu

Verðbólga hefur í þrjú ár verið undir markmiði Seðlabankans og ef húnæðisliður neysluverðsvísitölunnar er ekki talinn með hefur hún nánast staðið í stað. Reikn­að er með að verðbólga aukist nokkuð árin 2017 og 2018 en víki ekki veru­lega frá verðbólgumarkmiði og stefni í átt að því árin 2019–2022.

Breyting launa hefur verið í samræmi við fyrri spár og sæmilega friðvænlegt á vinnumarkaði fram undir árslok 2016. Langvinnt sjómannaverkfall og möguleg endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hefur nokkra óvissu í för með sér.

„Húsnæðisverð hefur hækkað talsvert umfram verðbólgu undanfarin ár, hækkunin síðasta hálfa árið hefur verið sérstaklega mikil, eða 10,7% en árshækkun er rúmlega 15%. Mikil fjölgun íbúa og ferðamanna veldur því að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði er langt umfram framboð og sú staða þrýstir verðinu upp, enda eru nýbyggingar færri en sögulegt meðaltal frá hruni.

Í spánni er gert ráð fyrir talsvert meiri íbúðafjárfestingu næstu ár. Fjárfesting hins opinbera á þriðja ársfjórðungi 2016 var um 3% hærri en gert hafði verið ráð fyrir í nóvemberspá. Munar þar mest um fjárfestingu sveitarfélaga, sem var tæpum 800 milljónum króna meiri en spáð var en um 200 milljónum lægri fyrir ríkissjóð.

Endurskoðuð spá fyrir árið 2016 gefur til kynna meiri vöxt fjárfestingar, en spáin er leiðrétt fyrir stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga til uppbyggingar á leiguheimilum sem eru fjármagnstilfærslur. Áætlað er að hlutur fjárfestingar hins opinbera í vergri landsframleiðslu árið 2016 hafi verið 2,8%.

Í frumvarpi til fjárlaga 2017, í 11. kafla um samgöngu- og fjarskiptamál, er gert ráð fyrir að fjárframlög ríkissjóðs verði um 15 milljörðum króna lægri árið 2017 en gert var ráð fyrir í samgönguáætlun 2015 til 2018 sem Alþingi samþykkti síðastliðinn október. Munar þar mest um tæplega átta milljörðum lægri stofnkostnað samgönguframkvæmda.

Samkvæmt fjárlögum 2017 sem samþykkt voru verður fjárfesting ríkissjóðs í efnislegum eignum tæplega 19% hærri en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun 2017 til 2021. Að auki sýna uppfærðar fjárhagsáætlanir sveitarfélaga að vænta megi mikils vaxtar í fjárfestingum þeirra í fastafjármunum á þessu ári. Fyrir vikið hefur spá fyrir árið 2017 verið endurskoðuð til hækkunar um tæp sex prósentustig og verður þá væntur vöxtur fjárfestingar hins opinbera á bilinu 9 til 10%. Um talsverða aukningu er að ræða þrátt fyrir að fjárfesting í Vestmannaeyjaferju sé ekki talin með þar sem hún verður tekin inn í uppgjör þjóðhagsreikninga við áætlaða afhendingu ferjunnar árið 2018.

Gangi spáin eftir verður hlutur opinberrar fjárfestingar í vergri landsframleiðslu um 2,9% árið 2017. Áætlað er að fjárfesting hins opinbera verði að meðaltali 3,5% á tímabilinu 2018 til 2022 og í lok spátímans er gert ráð fyrir að hlutur hennar í vergri landsframleiðslu verði um 3%.

Olíuverð hækki um 20% á árinu

Mánaðarlegt meðalverð olíu á heimsmarkaði hækkaði um rúm 10% á síðustu þremur mánuðum ársins 2016 í kjölfar þess að samkomulag náðist meðal OPEC-ríkjanna, Rússlands og Mexíkó um að draga úr framleiðslu á fyrri helmingi ársins 2017.

Þrátt fyrir hækkunina lækkaði meðalverð olíu á síðastliðnu ári um 16% frá árinu 2015 og var breytingin áþekk áætlun í nóvemberspá Hagstofunnar.

Talið er að heimsmarkaðsverð hækki um nærri fimmtung á árinu 2017. Stafar hækkunin meðal annars af fyrrgreindu samkomulagi til að draga úr birgðastöðu og óvissu um tímasetningar olíutengdra fjárfestinga vestanhafs sem háðar eru væntanlegum skattalækkunum.

„Samkvæmt Alþjóðabankanum (e. World Bank) er talið líklegast að heimsframleiðsla minnki um 1,5% á árinu 2017 og í spánni er gert ráð fyrir að heimseftirspurn aukist svipað. Rekja má aukningu eftirspurnar aðallega til aukinna umsvifa í Kína og Indlandi á meðan eftirspurn annarra landa eftir olíu helst nær óbreytt,“ segir í þjóðhagspánni.

Verðvísitala útfluttra álafurða lækkaði um 14% í Bandaríkjadollurum á árinu 2016 líkt og gert var ráð fyrir í nóvemberspá. Heimsmarkaðsverð á áli lækkaði minna, um 4%. Ekki er gerð mikil breyting frá nóvemberspá þar sem birgðastaða á heimsvísu var enn há í árslok 2016.

Samkvæmt niðurstöðum Alþjóðlegu álstofnunarinnar (e. International Aluminium Institute) hefur hún ekki mælst hærri í Kína. Reiknað er með að útflutningsverð álafurða hækki næstu ár að meðaltali um 3% á ári.

Á síðasta ári hækkaði verð á sjávarafurðum um tæpt prósent, sem er í samræmi við nóvemberspá. Næstu ár er áfram gert ráð fyrir hóflegri verðaukningu á sjávarafurðum. 

Þjóðhagsspáin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir