Eimskip vísar máli FME til dómstóla

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eimskip hefur ákveðið að vísa til dómstóla ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um fimmtíu milljóna króna stjórnvaldssekt vegna meints brots fyrirtækisins á lögum um verðbréfaviðskipti. 

Fjármálaeftirlitið telur að Eimskip hafi brotið gegn 1. mgr. 122. gr. laga um verðbréfaviðskipti, í tengslum við birtingu árshlutareiknings fyrir fyrsta ársfjórðung 2016. Eftirlitið telur brot Eimskips felast í því að hafa ekki birt fyrr innherjaupplýsingar sem mynduðust að mati eftirlitsins um bætta rekstrarafkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2016 eða sent Fjármálaeftirlitinu tilkynningu um frestun birtingar.

Í tilkynningu til Kauphallar segir að Eimskip sé ósammála þeirri lögskýringu sem liggi til grundvallar niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins. 

„Ef fallist verður á lögskýringu Fjármálaeftirlitsins mun hún leiða til þess í framkvæmd að skráðum félögum er í raun ómögulegt að standa eðlilega að vinnu við undirbúning fjárhagsuppgjöra, nema með því að taka ávallt upp það verklag að tilkynna eftirlitinu um frestun á birtingu upplýsinga um leið og undirbúningsvinna uppgjörs hefst. Vandséð er hins vegar hverju slík framkvæmd myndi þjóna og hvað þá fyrir fjárfesta sem eiga von á slíkri reglubundinni upplýsingagjöf af hálfu skráðra félaga á markaði,“ segir í tilkynningunni.

Að mati félagsins var öllum undirbúningi við gerð og birtingu uppgjörsins hagað í samræmi við lög og góða stjórnarhætti. Þess vegna hefur félagið ákveðið að vísa málinu til dómstóla.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK