Hafa veitt 3 milljarða í styrki frá 2015

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Reykjavíkurborg hefur ráðstafað rúmum þremur milljörðum í styrki frá ársbyrjun 2015. Á sama tímabili hafa útgjöld borgarinnar vegna samstarfssamninga numið 26,8 milljörðum króna. 

Þetta kemur fram í svari fjármálaskrifstofu borgarinnar við fyrirspurn borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina. Kallað var eftir upplýsingum um styrki og samstarfssamninga frá 2015 til 1. ágúst 2017. 

Hæstu styrkir hvers árs voru fjárfestingarstyrkir til Hörpu sem námu 492 milljónum árið 2015, 500 milljónum 2016 og 295 milljónum það sem af er 2017. Næsthæstir voru styrkir til Blindrafélagsins sem námu 53 milljónum króna 2015, 78 milljónum 2016 og 40 milljónum 2017. 

Stærsti samstarfssamningurinn er við Strætó bs en hann nam 2,7 milljörðum árið 2015, tæpum 2,9 milljörðum 2016 og  1,6 milljarði það sem af er ári. 

 Í svarinu segir að ekki sé útilokað að enn eigi eftir að bóka styrki eða samstarfssamninga vegna júlí 2017. 

Ef gert er ráð fyrir að upphæðir styrkja og samstarfssamninga sé í beinu hlutfalli út árið stefnir í að heildarstyrkir í ár verði 1,168 milljarðar og útgjöld vegna samstarfssamninga 9,69 milljarðar. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir