Birta skilaði allt að 5,9% raunávöxtun

Ljósmynd/Birta.is

Birta lífeyrissjóður birti á vef sínum í dag fyrstu tölur um ávöxtun eigna í séreignarsjóðum. Birta er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins og tók til starfa í desember 2016 eftir sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs.

Blönduð leið skuldabréfa og hlutabréfa til helminga skilaði 7,4% nafnávöxtun og 5,6% raunávöxtun 2017. Hún höfðar einkum til þeirra sem ávaxta fjármuni til lengri tíma og gera ráð fyrir að ávöxtun geti verið sveiflukennd á sparnaðartímabilinu, að því er kemur fram í frétt á vef Birtu

Skuldabréfaleið skilaði 7,7% nafnávöxtun og 5,9% raunávöxtun 2017. Hún hentar þeim sem vilja forðast ávöxtunarsveiflur og eru komnir á síðari hluta æviskeiðs.

Innlánsleið skilaði 3,8% nafnávöxtun og 2% raunávöxtun 2017. Eignir hennar eru innlán í bönkum og hún höfðar hvað mest til þeirra sem nálgast eftirlaunaaldur eða vilja sem minnstar sveiflur í ávöxtun séreignarsparnaðar síns.

Haft er eftir Ólafi Sigurðssyni framkvæmdastjóra að afkomutölurnar staðfesti að sameining sjóðanna hafi gengið vel og skilað áþreifanlegum árangri. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir