„Vekur það eingöngu reiði þegar kona selur?“

Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri PFAFF.
Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri PFAFF. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri PFAFF, furðar sig á því að lífeyrissjóðirnir hafi verið óánægðir þegar Katrín Olga Jóhannesdóttir seldi hlut sinn í Icelandair sem stjórnarmaður í félaginu en þagað þunnu hljóði þegar karlkyns stjórnarmenn hjá skráðum félögum gerðu það sama. 

Katrín Olga Jó­hann­es­dótt­ir, formaður Viðskiptaráðs, var felld í stjórn­ar­kjöri Icelanda­ir Group sem fór fram á aðal­fundi fé­lags­ins. Katrín seldi árið 2016 stór­an hlut sinn í Icelanda­ir Group, eða 400 þúsund hluti á geng­inu 24, að markaðsvirði 9,6 millj­ón­ir króna. Stór hóp­ur hlut­hafa var afar ósátt­ur við þá ákvörðun Katrín­ar að selja bréf sín, en gengi hluta­bréfa í fé­lag­inu féllu tölu­vert eft­ir að hún seldi.

Í pistli á Eyjunni skrifar Margrét að á undanförnum misserum hafi margir stjórnendur í félögum þar sem lífeyrissjóðirnir eiga ráðandi hlut selt hlutabréf án þess að þær sölur hafi vakið einhverja sérstaka óánægju. 

Hún tekur dæmi um sölu stjórnarformanns Nýherja á hlutabréfum fyrir 130 milljónir króna árið 2015, stjórnarmanns í Marel fyrir 124 milljónir árið 2016, helstu stjórnenda Haga og N1 fyrir hundruð milljóna árin 2016 og 2017, og stjórnarformanns TM fyrir 172 milljónir á síðasta ári. 

„Þegar viðbrögð við sölu Katrínar Olgu eru höfð til hliðsjónar við þessum milljóna viðskiptum vekur furðu að lífeyrissjóðirnir hafi þagað þunnu hljóði þegar allar þessar sölu gengu í gegn. Eða vekur það eingöngu reiði þegar kona selur fyrir 9 milljónir sem er örhlutur í samanburði við upphæð strákanna?“

Margrét segir að áhugavert verði að fylgjast með því hvort að sala „strákanna“ muni hafa áhrif á stöðu þeirra enda hljóti sjóðsfélagar að gera þá kröfu að lífeyrisjóðirnir séu samkvæmir sjálfum sér í sínum störfum.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir