200 milljóna tap Vesturkots á fimm árum

Spuni frá Vesturkoti og Þórarinn Ragnarsson í sveiflu.
Spuni frá Vesturkoti og Þórarinn Ragnarsson í sveiflu. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Gæðingurinn og stóðhesturinn Spuni frá Vesturkoti fór sigri hrósandi frá Landsmóti hestamanna á dögunum þar sem hann hlaut æðstu viðurkenningu hrossaræktunar, Sleipnisbikarinn. Verðlaunin komu kannski ekki mikið á óvart enda hefur rúmlega fjórða hvert afkvæmi undan Spuna komið til dóms.

Spuni hefur átt mikilli velgengni að fagna um langt skeið. Fimm vetra gamall setur hann heimsmet í kynbótadómi með einkunnina 8,92 og hefur enn enginn fimm vetra hestur náð þeirri tölu núna fimm árum seinna. Á Landsmótinu á Hellu árið 2014 fékk hann hæstu einkunn sem sést hefur á Landsmóti þegar hann keppti í úrslitum í A-flokki gæðinga og í fyrra varð Spuni Reykjavíkur- og Íslandsmeistari í fimmgangi.

Finnur Ingólfsson.
Finnur Ingólfsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Spuni er í dag tólf vetra en hann var fyrsta folaldið sem Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri, ræktaði hjá hrossaræktinni Vesturkoti á Suðurlandi. Þar eru nú 30 hesta hús, 900 fermetra reiðskemma og reiðvöllur með um það bil 250 metra skeiðbraut.

„Þetta er ekki ábótasamur rekstur,“ segir Finnur í samtali við mbl.is en samtals tapaði Vesturkot 207 milljónum króna árin 2012 til 2016 og var eigið fé félagsins neikvætt um rúmlega 240 milljónir króna í árslok 2016. Ársreikningi fyrir 2017 hefur ekki verið skilað en Finnur segir í samtali við mbl.is að tap hafi verið á rekstrinum í fyrra, en þó minna en árin á undan. Finnur er eini stjórnarmaður Vesturkots og er félagið að fullu í eigu Fikts ehf. sem er í eigu Finns. 

„Það hefur verið tap á hverju ári til þessa,“ segir Finnur en hann segir markmiðið til framtíðar vera að reka búið með tekjuafgangi. „Á sama tíma er verið að leggja inn einhver verðmæti í hrossum. Það eru að verða til gripir í búinu sem eru ekki færðir upp á þeim verðum sem hugsanlega er hægt að selja þá á þegar fram líða stundir,“ segir hann.

Vesturkot hefur verið starfrækt síðan 2006 og segir Finnur að það taki tíma að byggja upp hestarækt. „Sala á hrossum hefur aukist talsvert hjá okkur síðustu ár. En þetta er eins og hver önnur landbúnaðarstarfsemi og það er ekki mikil afkoma í því,“ segir hann. 

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir