Verða að bregðast við öldrun þjóða

Hagfræðingur Seðlabanka Evrópu segir að ríkisstjórnir verði að gera áætlanir …
Hagfræðingur Seðlabanka Evrópu segir að ríkisstjórnir verði að gera áætlanir um hvernig taka eigi á fjölgun ellilífeyrisþega. AFP

Ríkisstjórnir Evrópulanda verða að gera breytingar til að mýkja áhrifin sem öldrun íbúa álfunnar gæti haft á efnahagslífið. Þetta segir háttsettur stjórnandi hjá Seðlabanka Evrópu. Verði ekkert að gert muni áhrifin á efnahagslífið verða grafalvarleg.

„Í dag er hver ellilífeyrisþegi studdur af um það bil þremur vinnandi mönnum en árið 2070 verða aðeins tveir vinnandi menn á hvern ellilífeyrisþega,“ bendir Peter Praet, aðalhagfræðingur Seðlabanka Evrópu, á. 

Hann segir að mestu áhrifin muni þó koma fram fyrr er „barnasprengjukynslóðin“, sem fæddist í lok síðari heimsstyrjaldar, fari af vinnumarkaði. Það hefur hluti hennar þegar gert og á næstu árum munu aðrir sem henni tilheyra hætta störfum.

Praet segir að þar sem sífellt meira af opinberu fé sé eyrnamerkt kostnaði sem fylgir öldrun hafi ríkisstjórnir minna svigrúm til að mæta óvæntum uppákomum. Hann segir að áhrif þess að íbúar álfunnar séu að eldast séu m.a. þau að færri séu á vinnumarkaði, það geti hamlað framleiðni og haft áhrif á vexti af húsnæðislánum, svo dæmi sé tekið. Þá takmarki það einnig frelsi seðlabanka til að beita aðgerðum eins og þeim sem þeir hafa gert síðasta áratuginn.

Á sama tíma, ef ekkert verður að gert, muni skuldir á evrusvæðinu aukast verulega. Lönd sem eru  þegar í miklu skuldafeni, eins og Grikkland og Ítalía, hafa þegar lýst yfir áhyggjum af stöðu evrunnar til framtíðar.

Praet nefnir tvö svið sem leiðtogar Evrópuríkja þurfa að sinna: Að endurskipuleggja félagsleg kerfi sín til að draga úr kostnaði vegna atriða sem tengjast öldrun og að draga úr kostnaði annars staðar í hagkerfinu til að fjármagna kostnað vegna öldrunar.

Hann nefnir þann möguleika að ráðstafanir á ellilífeyri færist meira til einkageirans. 

Allir kostir í stöðunni gætu valdið pólitískum deilum og verið álitnir óréttlátir fyrir yngri kynslóðir eða of harkalegir fyrir þær eldri.

Praet nefnir að til að ekki verði bakslag að þessu leyti mætti fara í aðgerðir sem miði að því að tengja eftirlaunaaldur við lífaldur fólks en lífslíkur eru sífellt að hækka.

Til að mæta vandanum nú þegar væri hægt að hvetja til meiri þátttöku á vinnumarkaði sem og menntunar og þjálfunar margs konar sem og að slaka á höftum í atvinnulífinu. Það gæti gefið ríkisstjórnum og seðlabönkum andrými til að útfæra áætlanir sínar til framtíðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK