„Gríðarlegt högg fyrir svona samfélög“

Frá Djúpalónssandi á vesturströnd Snæfellsness, þar sem sjá má stórbrotna …
Frá Djúpalónssandi á vesturströnd Snæfellsness, þar sem sjá má stórbrotna kletta bera við himin. Vífill segir Snæfellsnes hafa notið góðs af vaxandi ferðaþjónustu, en að séð sé fram á samdrátt. mbl.is/Eggert

Afkoma fyrirtækja í botnfiskútgerð á síðasta ári versnaði hlutfallslega töluvert meira í Norðvesturkjördæmi en annars staðar á landinu. Þetta kemur fram í skýrslu sem endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið Deloitte tók saman fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Veiðigjöld höfðu sérstaklega mikil áhrif á rekstrarárið, en þau meira en þrefölduðust á milli ára. Þannig námu þau 806 milljónum fiskveiðiárið 2015/16, 600 milljónum 2016/17, en um 2.500 milljónum fiskveiðiárið 2017/18, samkvæmt úttekt Deloitte.

Þessu veldur afnám sérstakra lækkana, sem lækkuðu veiðigjöldin um 310-385 milljónir þau tvö fiskveiðiár sem á undan komu, og einnig góð afkoma tveimur árum fyrir álagningu veiðigjaldanna á fiskveiðiárinu 2017/18, sem myndaði reiknigrunninn fyrir innheimtu þeirra.

Heimild: Deloitte

Framlag uppsjávarveiða „í rýrari kantinum“

Vífill Karlsson, hagfræðingur og atvinnuráðgjafi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, segir háa álagningu veiðigjalda leggjast sérstaklega hart á smáar og/eða skuldsettar útgerðir.

„Þeir sem í gegnum tíðina hafa verið að reyna að viðhalda veiðigetu sinni, á sama tími og kvótinn var sífellt skertur ár frá ári, hafa þurft að skuldsetja sig til að viðhalda henni, og þá einkum í bolfiski,“ segir Vífill í samtali við 200 mílur. Hann bendir á að í kjördæminu séu aðallega stundaðar botnfiskveiðar, sem hafi komið verr út úr álagningu veiðigjalda.

„Framlag uppsjávarveiðanna til veiðigjalda er í rýrari kantinum, það verður að segjast eins og er,“ segir hann. „Litlar og meðalstórar útgerðir eru auk þess að fara verst út úr þessu kerfi eins og það er, og það eru nánast einu útgerðirnar í kjördæminu.“

Heimild: Deloitte

Uppsöfnuð þörf á endurnýjun

Spurður hvort þau rök haldi, að sjávarútvegsfyrirtæki hafi átt að leggja fyrir þegar vel áraði til að geta greitt veiðigjöld tveimur árum síðar, segir Vífill að málið sé ekki svo einfalt og að fara þurfi lengra aftur í tímann til að leita skýringa.

„Fyrst og fremst hafði sjávarútvegurinn lengi þurft að þola sterka krónu, í aðdraganda bankahrunsins, en eftir það veiktist hún verulega og varð hliðholl atvinnugreininni áður en hún styrktist síðan aftur núna seinni árin. En um mjög langt árabil höfðu menn ekki getað endurnýjað skip og annan búnað nógu hratt vegna dræmrar afkomu,“ segir hann.

„Það var því orðin gríðarleg uppsöfnuð þörf á endurnýjun í veiðum og vinnslu, sem menn hafa svo reynt að svara um leið og krónan styrktist aftur, til að fá meira fyrir peninginn úti. Þó það komi því nokkur góð ár með betri afkomu, þá hafa menn notað þann meðbyr fyrst og fremst til að svara þeirri þörf, og það á jafnt við um litlar og meðalstórar útgerðir annars vegar og þær stóru hins vegar, þó vissulega fari meira fyrir endurnýjun stóru togskipanna.“

Hann nefnir mikla endurnýjun sem nú stendur yfir hjá útgerðinni G.Run á Grundarfirði. „Hún mun stórbæta nýtinguna og gæðin verða meiri. Útgerðin er þvi samkeppnishæfari og reksturinn vonandi traustari í sessi. Það er erfitt að segja að þeir hefðu átt að geta safnað fyrir hinu líka.“

Ólafsvík. Útgerð og fiskvinnsla eru þar meginstoðir í atvinnulífinu.
Ólafsvík. Útgerð og fiskvinnsla eru þar meginstoðir í atvinnulífinu. mbl.is/Sigurður Bogi

Sveitarfélögin reiða sig á sjávarútveg

Utarlega á Snæfellsnesi byggja sveitarfélögin sinn hag á sjávarútvegi, enda var til þeirra stofnað á sínum tíma í þeim tilgangi. „Þar kemur rúmur helmingur teknanna beint úr sjávarútvegi,“ segir Vífill. „Ferðaþjónustan er á því svæði að skila í mesta lagi 10% tekna, þó Snæfellsnesið sé vinsæll staður fyrir ferðamenn heim að sækja. Í veiðigjöldunum felst því gríðarlegt högg fyrir svona samfélög, þar sem allt hvílir á sjávarútvegi.“

Vífill bendir einnig á að mikill fjöldi smábáta sé gerður út frá Snæfellsnesi.

„Ég veit að í smábátaútgerðinni hafa menn sérstakar áhyggjur. Þessi mikla hækkun veiðigjalda og þær breytingar sem í stefnir með frumvarpinu valda því að menn hreinlega hætta eða eru að íhuga að hætta,“ segir hann.

„Og þá er ekki svo einfalt að fara í eitthvað annað. Við höfum notið góðs af aukinni ferðaþjónustu en nú er einmitt að hægja á vextinum þar og menn sjá fram á allnokkurn samdrátt í ferðaþjónustu í þessari fjarlægð frá höfuðborginni. Dvalartími er að styttast og því minnkar gisting á öðrum stöðum en á höfuðborgarsvæðinu.“

Strandveiðiflotinn á Grundarfirði speglar sig eftir sumarið.
Strandveiðiflotinn á Grundarfirði speglar sig eftir sumarið. mbl.is/Gunnar Kristjánsson

Skrýtið að vera einir um auðlindagjaldið

Snæfellsnesið sé því að upplifa högg á tveimur stöðum, þó annað sé vissulega þyngra en hitt.

„Eitt finnst okkur einnig skjóta skökku við, eins og aðrir hafa bent á. Ef sjávarútvegur á að inna af hendi þessi auðlindagjöld ár eftir ár, hvað með allar aðrar atvinnugreinar sem nýta auðlindir landsins? Menn eru alveg tilbúnir að borga nýtingargjald af auðlind, en þeim finnst skrýtið að vera einir um það,“ segir hann.

„Þá myndum við líka vilja fá að sjá meira af auðlindagjöldum ganga beint til uppbyggingar og þróunar innviða um allt landið, og kannski einkum vegna atvinnugreina sem byggja á nýtingu náttúruauðlinda eins og ferðaþjónustu, sjávarútvegs, orkuvinnslu og landbúnaði. Þannig væri hægt að stuðla að sjálfbærri nýtingu og rekstri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK