Systir opnar í stað nafnlausa pizzastaðarins á Hverfisgötu

Teymið á Systur: Andreas Peterson, Sona Zednikova og Karin Schmitz ...
Teymið á Systur: Andreas Peterson, Sona Zednikova og Karin Schmitz ásamt yfirkokkunum Kára Þorsteinssyni og Ólafi Ágústssyni. Á myndina vantar Elísu Jóhannsdóttur, veitingastjóra á DILL. Mbl.is/ Eggert

Síðustu helgi lokaði nafnlausi pizzastaðurinn en nú á fimmtudaginn opnar þar nýr staður, Systir, sem er í eigu sömu aðila. 

„Okkur langaði einfaldlega að breyta til og gera þeirri stefnu sem Dill stendur fyrir hærra undir höfði,“ segir Ólafur Ágústsson, kokkur og einn eigenda Hverfisgötu 12 sem hefur undanfarin ár verið þekkt sem nafnlausi pizzastaðurinn. „Við höfum hæfileika og mannafl til þess að sækja meira í eldamennskuna sem einkennir Dill og okkur langaði að tengja staðina tvo betur.“

Systurstaðurinn með Michelin-stjörnu

Veit­ingastaður­inn Dill Restaurant hef­ur getið sér gott orð hér­lend­is sem er­lend­is og er einmitt staðsettur á neðstu hæðinni á Hverfisgötu 12. Hann hef­ur hlotið margs kon­ar viður­kenn­ing­ar og hef­ur nokkr­um sinn­um verið val­inn besti veit­ingastaður Íslands á list­um á borð við White Gui­de Nordic, Nordic Prize og víðar. Í fyrra hlaut hann svo hina margrómuðu Michelin-stjörnu sem veitingastaðir um allan heim keppast um að fá. 

Nafnlausi pizzastaðurinn var búinn að festa sig í sessi sem einn helsti „hipstera“-staður borgarinnar og hefur verið valinn besti pizzastaður Reykjavíkur af Reykjavik Grapevine. Munu ekki margir sakna hans? „Jú, það er klárt mál að margir munu sakna hans en við vonumst til að okkar góði kúnnahópur muni einmitt kunna að meta breytingarnar og halda áfram að sækja staðinn,“ segir Ólafur sem verður yfirkokkur á Systur ásamt Kára Þorsteinssyni sem er einnig yfirkokkur á Dill. „Við ætlum að halda okkur í sama verðflokki og innréttingum verður ekki breytt, þarna verður sama notalega andrúmsloftið og mikið lagt upp úr góðum bjór og kokkteilum svo fólk geti staldrað við heila kvöldstund. Við byggjum á því að eiga svo gott fólk í húsinu að það vantar ekkert upp á að geta opnað strax.“

Byggir á hugmyndafræði nýnorrænnar matargerðar

En hvers vegna nafnið Systir? „Vegna þess að þetta er systurstaður Dill og vegna þess að þetta er einfaldlega fallegt íslenskt orð. Við munum fá nýtt markaðslegt útlit og munum verða trúir þessari nýnorrænu matargerð sem Dill er frægur fyrir,“ útskýrir hann. „Við munum hins vegar ekki láta landafræðina trufla okkur of mikið og munum stökkva af þeim vagni stundum þegar það hentar okkur. En aðalhugmyndafræðin er byggð á þessari nýnorrænu matargerð þar sem íslensk hráefni eru notuð og sótt er í gamlar íslenskar hefðir.“

Spurður hvort Systir sæki áhrif frá því sem er að gerast erlendis svarar Ólafur játandi. „Að vissu leyti erum við að horfa á þessa kokkadrifnu vínbari eins og Four Horsemen í New York, Brutus og vin í Noregi og Manfreds og vin í Kaupmannahöfn. Stöðum þar sem mikið er lagt upp úr matargerð og góðum vínum, við tökum vínseðilinn á Dill og aðlögum hann matnum á nýja staðnum. Við verðum með „craft“ bjóra, kokkteila, náttúruvín og hefðbundin vín. Svo munu fastagestir á Hverfisgötu 12 þekkja fáeina af vinsælustu smáréttunum aftur á matseðlinum þar sem við höfum verið að daðra við þessar breytingar á áherslum lengi. Við byrjum svo aftur á því að vera með plötusnúða um helgar og vinsæli Mikkeller-barinn á efstu hæðinni verður hinn sami og tekur engum breytingum. “

Dill verður áfram rekinn með sama sniði og að sögn Ólafs er enn uppbókað langt fram í tímann á staðnum og erfitt að fá borð. „En það er gaman að segja frá því að jafnframt opnun nýja staðarins munum við breyta bókunarkerfinu á Dill þannig að aðeins sé hægt að bóka einn mánuð fram í tímann. Þetta mun gefa fleiri Íslendingum tækifæri á að snæða á Dill sem eins og er er mestmegnis uppbókaður af útlendingum langt fram í tímann.

En verða engar pizzur áfram á matseðlinum? „Nei, engar pizzur,“ segir Ólafur og hlær. „En það er aldrei að vita, kannski laumum við einni pizzu á matseðilinn seinna.“

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir