Lækkun launa Birnu í raun 6,8%-9,5%

Allir bankastjórar viðskiptabankanna þriggja hækkuðu á síðasta ári í launum.
Allir bankastjórar viðskiptabankanna þriggja hækkuðu á síðasta ári í launum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Laun bankastjóra stóru viðskiptabankanna þriggja hafa verið talsvert í sviðsljósinu síðustu viku eftir að greint var frá mikilli hækkun launa bankastjóra Landsbankans. Tilkynnti Íslandsbanki til dæmis í kjölfarið um að bankastjóri bankans hefði lækkað í launum um 14,1% að eigin ósk. Þegar nánar er að gáð átti það hins vegar aðeins við um grunnlaun og var lækkunin í raun á bilinu 6,8% - 9,5% þegar tekið er mið af hlunnindum, kaupauka og hærri greiðslum í viðbótarlífeyrissparnað.

Höskuldur með 6,2 milljónir og hæstu launin

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, var hæst launaði bankastjórinn í fyrra með 6,2 milljónir í mánaðarlaun, en þar af voru 7,2 milljónir, eða 600 þúsund krónur á mánuði, í árangurstengdar greiðslur. Voru laun hans samtals 74,7 milljónir á síðasta ári, en höfðu verið 71,2 milljónir árið áður. Nemur hækkunin 4,9%.

4,8 milljónir en ekki 4,2 milljónir hjá Birnu

Nokkuð hefur verið á reiki hver nákvæm laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, hafi verið. Í tilkynningu Íslandsbanka á mánudaginn, eftir að greint hafði verið frá hækkun launa bankastjóra Landsbankans, kom fram að Birna hefði sjálf óskað eftir 14,1% lækkun sem tók gildi í nóvember. Þegar mbl.is leitaði nánari svara um hver laun hennar voru kom fram að þau væru 4,2 milljónir á mánuði og hefðu lækkað úr 4,8 milljónum.

Á miðvikudaginn þegar ársreikningur Íslandsbanka var svo birtur kom í ljós að heildarlaun Birnu fyrir síðasta ár voru 63,5 milljónir, eða tæplega 5,3 milljónir á mánuði. Höfðu launin því hækkað um 9,5% milli ára þegar tekið var mið af hlunnindum og kaupaukum. Þess má geta að grunnlaun hennar hækkuðu um rúmlega 10 milljónir milli ára, en á móti kom að árangurstengd laun lækkuðu um tæplega 6 milljónir. Heildarhækkun launa milli 2017 og 2018 var því um 5,5 milljónir yfir árið.

Með tilkynntri launalækkun á mánudaginn var því aðeins átt við föst laun Birnu, en þau höfðu verið 4,89 milljónir og lækkuðu niður í um 4,2 milljónir. Í Morgunblaðinu í gær kemur fram að samhliða launalækkuninni hafi Birna nýtt sér möguleika í lögum um að vinnuveitandi geti greitt allt að tvær milljónir króna á ári í lífeyrissjóð sem mótframlag umfram umsamdar prósentur. Er því um að ræða 142.450 krónur á mánuði sem viðbótarlífeyrissparnaður hennar hækkaði á mánuði á móti lækkun grunnlaunanna. Þá munu einnig kaupaukagreiðslur til greiðslu á þessu ári hækka úr 3,9 milljónum í 4,7 milljónir. Verða heildarlaun hennar á árinu því 57,5 milljónir, eða 4,8 milljónir á mánuði, í stað 63,55 milljóna í fyrra samkvæmt áætlun Morgunblaðsins og við það bætist hækkunin á lífeyrisgreiðslum. Nemur heildarlækkunin því 6,8% - 9,5%, eftir því hvort lífeyrisgreiðslurnar eru teknar með eða ekki.

Lilja með 3,8 milljónir, en hækkar hlutfallslega mest

Árslaun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, námu í fyrra 44 milljónum króna, eða 3,8 milljónum á mánuði. Hafði hún tvisvar hækkað og nam mánaðarhækkunin 82%, en árið 2017 var fyrsta ár Lilju sem bankastjóra og hóf hún störf um miðjan mars og eru heildarlaun fyrir árið því ekki sambærileg milli ára. Engar árangurstengdar greiðslur eru hjá Landsbankanum.

Sagði bankaráð í tilkynningu að laun Lilju hefðu verið „færð nær þeim kjör­um sem al­mennt gilda fyr­ir æðstu stjórn­end­ur fjár­mála­fyr­ir­tækja“. Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt skarpa hækkun bankastjórans. Þá hafa einnig forsvarsmenn í verkalýðshreyfingunni gagnrýnt ákvörðunina.

Sendi Bjarni í kjölfarið bréf á stjórnir fyrirtækja í ríkiseigu og stjórnar Bankasýslu ríkisins þar sem minnt var á skyldu stjórna til að ákvarða laun yfirmanna í takt við ákvæði eigendastefnu ríkisins um fyrirtæki í eigu ríkisins. Var sérstaklega minnst á ákvæði um að „... setja sér hóflega en samkeppnishæfa launastefnu“. Bankasýslan sendi einnig bréf á stjórnir Landsbankans og Íslandsbanka í kjölfarið og óskaði eftir upplýsingum um laun bankastjóra og er í tilfelli Landsbankans sérstaklega vísað til tilkynningar Íslandsbanka um breytingar á launakjörum bankastjóra.

Íslenska ríkið er 100% eigandi Íslandsbanka og eigandi 98,2% hlutar í Landsbankanum. Arion banki er hins vegar einkarekinn og í meirihlutaeigu Kaupskila, eignarhaldsfélags á vegum Kaupþings ehf., og erlendra vogunarsjóða. Félagið er skráð á markað bæði hér heima og í Svíþjóð.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK