Advania sendir frá sér yfirlýsingu

Höfuðstöðvar Advania.
Höfuðstöðvar Advania. mbl.is/Ómar Óskarsson

Advania hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna þess sem fram kom í frétt ViðskiptaMoggans í dag en þar sagði að fyrirtækin Advania og Wise hefðu beitt blekkingum, eða veitt rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar til Samkeppniseftirlitsins, vegna samruna fyrirtækjanna tveggja. Vísar Advania þeim ásökunum á bug.

Þessar fullyrðingar komu fram í umsagnarbeiðni sem Samkeppniseftirlitið sendi frá sér vegna fyrirhugaðs samruna fyrirtækjanna en samkvæmt því vaknaði grunur um brot fyrirtækjanna í kjölfar þess að stofnunin bar saman gögn úr samrunatilkynningunni og innanhúsgögnum frá Advania. Sneru gögnin að kaupum fyrirtækisins á Wise, aðdraganda kaupmanna og einnig þeim gögnum frá Advania sem vörðuðu þá markaði sem samruninn kunni að hafa áhrif á.

Vísar Advania ofanverðum fullyrðingum „alfarið á bug“.

„Við hjá Advania höfum talað um hina augljósu staðreynd innan fyrirtækisins að Wise sé einn stærsti söluaðili landsins á þessu tiltekna fjárhagskerfi. Það er á engan hátt á skjön við skilning okkar á því að samkeppnisumhverfi með fjárhagshugbúnað sé alþjóðlegt, eins og við segjum í samrunatilkynningu til Samkeppniseftirlitsins. Samkeppni um hugbúnað getur ekki afmarkast af landamærum. Það er því ekkert ósamræmi í skilgreiningum okkar á markaði,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Þar segir enn fremur að á Íslandi séu stærri samkeppnisaðilar en Wise að bjóða fjárhagskerfi, að fyrirtækið starfi í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi, og því hafi Advania í gögnum til Samkeppniseftirlitsins skilgreint samkeppnisumhverfi með hugbúnað á borð við fjárhagskerfi sem alþjóðlegt.

„Í því felst hvorki blekking né ásetningur um að villa fyrir Samkeppniseftirlitinu.“

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi.
Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi.

Yfirlýsing Advania í heild sinni en undir hana ritaði Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi.

Vegna fyrirhugaðra kaupa Advania á Wise Lausnum ehf
Advania og Wise sendu Samkeppniseftirlitinu tilkynningu um samruna félaganna fyrir nokkru. Wise er öflugur söluaðili á Microsoft Dynamics NAV fjárhagshugbúnaði bæði hér á landi og erlendis. Hjá Advania, líkt og hjá Wise, starfa fjölmargir sérfræðingar í Microsoft Dynamics NAV og líkt og hjá Wise er um að ræða viðskiptavini bæði innanlands og utan. Við samruna þessara tveggja félaga yrði til eining sem gæti betur mætt síaukinni og harðnandi alþjóðlegri samkeppni um fjárhagshugbúnað.

Samkeppniseftirlitið hefur nú gert athugasemdir við hvernig Advania skilgreinir samkeppnisumhverfið sitt og hefur sakað fyrirtækið um að hafa veitt villandi eða rangar upplýsingar um það í samrunaskrá. Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu, þar sem óskað eftir umsögnum um samrunann, er fullyrt að ósamræmi hafi verið í skilgreiningu á samkeppnisumhverfi í samrunatilkynningu annars vegar og innanhúsgögnum Advania hins vegar.
Þessum fullyrðingum Samkeppniseftirlitsins vísar Advania alfarið á bug.

Við hjá Advania höfum talað um hina augljósu staðreynd innan fyrirtækisins að Wise sé einn stærsti söluaðili landsins á þessu tiltekna fjárhagskerfi. Það er á engan hátt á skjön við skilning okkar á því að samkeppnisumhverfi með fjárhagshugbúnað sé alþjóðlegt, eins og við segjum í samrunatilkynningu til Samkeppniseftirlitsins. Samkeppni um hugbúnað getur ekki afmarkast af landamærum. Það er því ekkert ósamræmi í skilgreiningum okkar á markaði.
Á Íslandi eru auk þess stærri samkeppnisaðilar en Wise að bjóða önnur öflug fjárhagskerfi. Öll störfum við í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.
Advania hefur því í gögnum til Samkeppniseftirlitsins skilgreint samkeppnisumhverfi með hugbúnað á borð við fjárhagskerfi sem alþjóðlegt. Í því felst hvorki blekking né ásetningur um að villa fyrir Samkeppniseftirlitinu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK