Innnes hækkar ekki vöruverð

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness.
Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness. mbl.is/Árni Sæberg

Engar verðhækkanir vegna nýrra kjarasamninga eru í farvatninu hjá innflutningsfyrirtækinu Innnesi. Þetta segir Magnús Óli Ólafsson, forstjóri fyrirtækisins í samtali við mbl.is. Hann segir samningamenn hafa sýnt skynsemi, og að hinn nýi kjarasamningur, sem að líkum verður samþykktur á næstu dögum, sé góður. 

„Það er til þess vinnandi að halda stöðugleika. Við viljum gera það sem í okkar valdi stendur að ýta ekki auknum kostnaði út í verðlagið heldur eiga við hann með öðrum hætti. Við viljum frekar leita inn á við og sjá hvernig við getum sparað, endurskipulagt ferla o.s.frv. Það hefur verið töluverð söluaukning hjá okkur það sem af er ári samanborið við sama tíma í fyrra, svo það er þá líka ástæða til þess að reyna að halda í sér varðandi verðbreytingar.“

Hefur meiri áhrif á framleiðslufyrirtækin

Spurður um áhrif kjarasamninga á markaðinn segir Magnús Óli það vera ljóst að þeir muni auka kostnað. Hann segir að kostnaðaraukninguna hafa meiri áhrif á framleiðslufyrirtæki, en Innnes sé ekki í neinni framleiðslu. Samningarnir muni þó vitanlega einnig hafa áhrif á Innness.

Þá segir hann launaskrið og kaupmáttaraukningu launþega síðastliðin ár hafa haft áhrif á fyrirtækið. Því ætli það sem stendur einbeita sér að því að velta við öllum steinum í rekstrinum til að finna sparnaðarleiðir, og að reyna að auka sölu, fremur enn að hækka vöruverð.

Pizzuverð hækkar ekki

Þá vekur Magnús á því athygli að pizzur frá Dr. Oetker hækki ekki í verði. Vegna verðhækkana sem önnur fyrirtæki hafa boðað hafi einhverjir netverjar talið að pizzur frá Dr. Oetker myndu hækki í verði, en bökunarvörur frá merkinu eru seldar af öðru fyrirtæki. Pizzurnar frá Dr. Oetker eru hins vegar seldar af Innnesi og því ekki von á að verð á þeim hækki.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir