Dýfa á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum

Fjárfestar hafa verið að selja hlutabréf í miklu magni í ...
Fjárfestar hafa verið að selja hlutabréf í miklu magni í dag í kjölfar þess að Kínverjar sögðust ætla að svara tollun Bandaríkjanna. AFP

Helstu vísitölur á Wall Street hafa fallið um 2% í dag í kjölfar þess að Kína lýsti því yfir að ríkið myndi leggja tolla á Bandarískar vörur sem svar við tilkynningu bandarískra stjórnvalda um að hækkun tolla á kínverskar vörur.

Hafa myndast áhyggjur af því að tollastríð ríkjanna ýti undir samdrátt í bandaríska hagkerfinu, að því er segir í umfjöllun Reuters.

Fjárfestar hafa í dag selt talsvert magn af hlutabréfum í tæknifyrirtækjum og eru þar á meðal framleiðendur örflagna, stór framleiðslufyrirtæki og smásöluaðilar er stunda talsverð viðskipti við kínverska aðila. Þá hafa hlutabréf Facebook, Amazon, Apple, Netflix og Alphabet, móðurfélag Google, öll fallið á bilinu 1,7% til 5%.

Dow Jones iðnaðarvísitalan hefur lækkað um 2,28% í dag, S&P 500 um 2,44% og Nasdaq um 2,77% á sama tíma.

Talið er að viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína sé til þess fallið að auka viðskiptakostnað og hafi því neikvæð áhrif á hagnað og dregur úr möguleikum fyrirtækja til þess að standa undir fjármagnskostnaði.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir