„Gæti leitt til ákveðins vítahrings“

Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar segir að jöfnunarsjóðsleiðin geti leitt til …
Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar segir að jöfnunarsjóðsleiðin geti leitt til ákveðins vítahrings. mbl.is/ÞÖK.

Þrátt fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun hafi samþykkt beiðni Íslandspósts um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu til þess að viðhalda póstdreifingu er málið ekki svo auðvelt að Íslandspóstur hafi með því fengið 1,5 milljarða. Ekkert fjármagn er í sjóðnum og ekki er safnað í hann að staðaldri. 

Hrafn­kell V. Gísla­son, for­stjóri Póst- og fjar­skipta­stofn­un­ar, segir í samtali við mbl.is að í framhaldi af samþykki stofnunarinnar þurfi ráðherra að samþykkja þá tillögu og leggja hana fyrir þingið sem þarf að samþykkja hana sem skattalagabreytingu. Svo þarf að líða heilt ár og í framhaldinu er hægt að leggja þennan nýja skatt á með tilheyrandi innheimtu sem væri svo greidd út. Hins vegar segir Hrafnkell að einnig væri hægt að fara þá leið að veitt væri heimild í fjárlögum til útgreiðslu úr sjóðnum án þess að þar væru til peningar. Gerir hann þó ekki ráð fyrir því að nein útgreiðsla geti átt sér stað úr sjóðnum fyrr en í fyrsta lagi árið 2021.

Íslandspóstur sá eini sem greiðir í og fær úr sjóðnum

Samkvæmt lögum um póstþjónustu er jöfnunargjald sem greitt er í jöfnunarsjóð alþjónustu aðeins innheimt af rekstrarleyfishöfum í hlutfalli við bókfærða veltu þeirra á póstmarkaði. Hrafnkell segir að Íslandspóstur sé með um 80% af veltunni á póstmarkaði og myndi innheimta frá fyrirtækinu endurspegla það hlutfall.

Blaðamanni leikur forvitni á að fá nánari skýringu á gangverki þessa sjóðs og áhrifum af því að veitt yrði heimild til að innheimta jöfnunargjaldið, hvort það þýddi ekki að Íslandspóstur þyrfti að hækka gjaldskrá sína til að standa undir auknum greiðslum inn í sjóðinn sem fyrirtækið fengi svo greitt til baka úr sjóðnum. Hrafnkell segir að fræðilega séð yrði þetta niðurstaðan. Til að mæta 1.200 milljóna útgjöldum vegna alþjónustu þyrfti líklegast að hækka tekjur vegna einkaréttarbréfaþjónustu um 1.200 milljónir sem þýðir að póstburðagjald myndi hækka.

Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.
Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.

Hækkun myndi draga úr notkun póstþjónustu

Hrafnkell segir að stofnunin hafi í fyrri ákvörðunum sínum bent á að verð einkaréttarbréfaþjónustunnar sé komið nokkuð hátt upp. „Hækkun yrði til þess að enn myndi draga úr notkun þessarar þjónustu og gæti leitt til ákveðins vítahrings varðandi alþjónustu,“ segir Hrafnkell. Bætir hann við: „Það er ekki alveg augljóst í mínum huga að það sé heppileg leið að fara alþjónustusjóðsleiðina í þessu máli. Þetta er alfarið ákvörðun ráðherra hvað gert er.“

Segir Hrafnkell að alþjónustusjóðsleiðin sé tæknilega fær, en að aðrir valkostir séu einnig í stöðunni. Þannig vísar hann til frumvarps nýrra póstlaga þar sem talað sé um að alþjónustukostnaður sé greiddur úr ríkissjóði. Segir hann alla vega ljóst að langt sé enn í land með að umræðan um póstinn og alþjónustuna verði kláruð og þurfa finni út hvaða útfærsla sé skynsömust varðandi útburð á pósti um allt land.

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að Íslandspóstur væri eini mögulegi greiðandi í sjóðinn. Hið rétta er hins vegar að allir rekstraraðilar á póstmarkaði þurfa að greiða í sjóðinn hlutfall af veltu og væri því hlutur Íslandspóst um 80%. Fréttin hefur verið uppfærð samkvæmt þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK