Húrra-menn opna hamborgarastað

Sindri, Jón og Haukur í rýminu þar sem stefnt er …
Sindri, Jón og Haukur í rýminu þar sem stefnt er að því að opna Yuzu nú í september. Ljósmynd/Snorri Björns

„Þetta verður miklu meira en bara hamborgarastaður,“ segir Sindri Snær Jensson, annar eigenda verslunarinnar Húrra Reykjavík, sem opnar einmitt einn slíkan, hamborgarastað, á næstunni.

Staðurinn tilvonandi hefur fengið heitið Yuzu eftir gula ávextinum, sem lítur út eins og krumpuð sítróna og er fyrirferðarmikill í japanskri matargerð. Yuzu verður að finna í mörgum réttum á matseðli staðarins, sósum og fleira.

Sindri leggur  áherslu á að stað staðurinn muni bjóða upp á fjölbreyttan matseðil. „Það verður eitthvað fyrir alla,“ segir hann, hvort heldur kjötætur, grænkera eða aðra. Hann segir þá félaga sækja fyrirmyndir hvaðanæva, bæði frá Evrópu og Asíu. Á staðnum verður til að mynda boðið upp á gufubökuð brauð, sem Sindri segir að séu ferskari en Íslendingar eigi að venjast.

Þaulreyndir viðskiptamenn

Auk Sindra koma Jón Davíð Davíðsson, meðeigandi hans í Húrra, og Haukur Már Hauksson, kokkur og vinur þeirra stráka, að staðnum. Ástríða Hauks liggur í asískri matargerð og mun þeirra áhrifa vafalítið gæta á matseðlinum, segir Sindri. Haukur hefur komið víða við í eldhúsinu, var yfirkokkur á Grillmarkaðnum og starfaði á Zuma, einum flottasta veitingastað í heimi, í London.

Sindri og Jón eru heldur ekki ókunnir veitingabransanum því þeir eru báðir í eigendahópi pítsastaðarins Flateyjar, sem opnaði úti á Granda í Reykjavík fyrir tveim árum við góðar undirtektir.

Þessi tölvuteiknaða mynd sýnir fyrirhugað útlit staðarins.
Þessi tölvuteiknaða mynd sýnir fyrirhugað útlit staðarins. Teikning/Haf Studio

Yuzu verður til húsa á Hverfisgötu 44, steinsnar frá strákaverslun Húrra í húsi númer 50, á Brynjureitnum svokallaða. Þeir félagar fengu lyklana að nýbyggingunni um síðustu mánaðamót og hafa unnið að uppbyggingu síðan. Rýmið, 200 fermetrar á jarðhæð, er skipulagt í samstarfi við Haf Studio og er ætlunin að það verði í „þokkalega hráum skandinavískum stíl“ en þó með japönsku ívafi í samræmi við matseðilinn.

Sindri segist raunsæis- og bjartsýnismaður, og því sé stefnt að opnun í september. „Við erum alveg ógeðslega spenntir fyrir því að sýna fólki þetta og teljum að við séum með talsvert öðruvísi konsept en fólk eigi að venjast,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK