Thomas Cook gjaldþrota

Ein af skrifstofum ferðaþjónustufyrirtækisins Thomas Cook í London. Rúmlega 150.000 …
Ein af skrifstofum ferðaþjónustufyrirtækisins Thomas Cook í London. Rúmlega 150.000 manns eru nú strandaglópar eftir gjaldþrot fyrirtækisins. AFP

Breska ferðaþjónustufyrirtækið Thomas Cook er orðið gjaldþrota, eftir að slitnaði upp úr samningaviðræðum til að bjarga þessu 178 ára gamla fyrirtæki. Reynt hafði verið að fá 200 millj­ón­ sterl­ings­pund, sem nem­ur rúm­um 31 millj­arði ís­lenskra króna, inn í rekst­ur­inn.

BBC hefur eftir breskum flugmálayfirvöldum (CAA) að fyrirtækið hafi „hætt starfsemi frá og með þessari stundu“. Greint var frá því í gærkvöldi að allar ferðir á vegum félagsins hefðu verið teknar úr sölu eftir að sýnt þótti að samningar næðust ekki.

Talið er að rúmlega 150.000 manns séu strandaglópar víða um heim eftir gjaldþrot flugfélagsins og segja bresk yfirvöld þetta mestu mannflutninga á friðartímum. Grant Shapps, samgöngumálaráðherra Bretlands, hefur þegar tilkynnt að vinna sé hafin við að koma fólki heim.

Sagði hann gjaldþrotið vera „miklar sorgarfréttir fyrir bæði starfsfólk og ferðalanga“, en hvatti fólk um leið til að sýna starfsfólki skilning varðandi það „gríðarstóra verkefni“ að koma ferðalöngum heim.

Peter Fankhauser, forstjóri Thomas Cook, sagði mikla eftirsjá að fyrirtækinu um leið og hann bað milljónir viðskiptavina og þúsundir starfsmanna afsökunar.   

Talið er gjaldþrot Thomas Cook geti haft áhrif á 22.000 störf víða um heim, þar af 9.000 í Bretlandi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK