Icelandair segir upp 87 flugmönnum

Framlenging á kjarasamningi Icelandair við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur verið undirritaður og gildir hann til 30. september 2020. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá flugfélaginu en fyrri samningur hefði að óbreyttu runnið út um næstu áramót.

Samhliða því verður dregin til baka fyrri ráðstöfun um að færa 111 flugmenn niður í 50% starf frá 1. desember 2019 til 1. apríl 2020 en þess í stað hefur 87 flugmönnum verið sagt upp störfum frá 1. október. Er vonast til þess að hægt verði að ráða þá flesta aftur næsta vor. Hjá félaginu starfa áfram 460 flugmenn og flugstjórar segir í fréttatilkynningunni.

Fram kemur að kyrrsetning Boeing 737 MAX-flugvéla Icelandair hafi haft neikvæð áhrif á rekstur félagsins sem og flugáætlun í vetur. Þessi staða hafi eðli málsins samkvæmt áhrif á áhafnaþörf Icelandair og bregðast þurfi við með því að aðlaga fjölda áhafnameðlima að flugáætlun félagsins.

Fram kemur enn fremur að kjarasamningurinn kveði á um að samningsbundin launahækkun, sem taka átti gildi 1. október, frestast til  1. apríl 2020 og engar aðrar launahækkanir munu eiga sér stað á tímabilinu.

Samhliða þessu hafi verið undirrituð viljayfirlýsing sömu aðila um að skipa starfshóp til að útfæra ýmis atriði sem snúi að starfsfyrirkomulagi flugmanna sem miði að því að styrkja samkeppnishæfni Icelandair.

Samningurinn fer nú í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum FÍA.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK